Verðfall tæknifyrirtækja vekur spurningar

Margir fréttaskýrendur hafa útskýrt verðfall á tæknifyrirtækjum á hlutabréfamörkuðum svo að dómur sá er gekk Microsoft í óhag gegn bandaríska ríkinu um daginn hafi breytt viðhorfi fjárfesta til tæknigeirans. Sá dómur kom hins vegar ekki á óvart. Skýringin, að mati Más Wolfangs Mixa, er fjöldi veikra fjárfesta á markaðinum.

SÍÐASTLIÐIÐ haust var mikið rætt um að verðhrun gæti átt sér stað á hlutabréfum í Bandaríkjunum. Helstu rökin sem sett voru fram voru að 2000-vandinn (man einhver eftir honum?) myndi valda glundroða um allan heim, samlíkingar við ástandið á sama árstíma 1929, og sú einfalda staðreynd að hlutabréfaverð var víðast hvar hátt metið samkvæmt helstu kennitölum og samanburðarfræðum. Birtust m.a. tvær greinar í Morgunblaðinu á því tímabili þar sem varað var við hættu á verðhruni, reyndar báðar byggðar á sömu greininni í The Economist. Októbermánuður kom og fór án nokkurs hruns á verði hlutabréfa. Samhliða því fóru áhyggjur manna af 2000-vandanum að minnka.

Það virðist sem margir fjárfestar hafi í byrjun nóvember litið svo á, að allar hættur á verðhruni hafi verið úr veginum. Hrakspárnar höfðu ekki ræst. Verð margra hlutabréfa, sem almennt flokkast undir áhættusama fjárfestingu, fór jafnt og þétt að hækka. Þegar fréttir fóru að berast um aðila sem höfðu hagnast auðveldlega á slíkum fjárfestingum, vildu fleiri og fleiri taka þátt í verðsveiflunni upp á við. Margir fóru að taka lán til þess og afleiðingarnar hafa í sumum tilfellum verið skelfilegar.

Samkvæmt alríkislögum í Bandaríkjunum mega verðbréfafyrirtæki lána 50% fjárfestinga til verðbréfakaupa. Verðbréfafyrirtæki leggur m.ö.o. til 50% til að kaupa hlutabréf fyrir hönd fjárfestis og hann leggur sjálfur fram eigið fé fyrir 50% af upphæðinni. Flest fyrirtæki eru með innanhúsreglur um að fari markaðsvirði hlutabréfa niður fyrir 30-40% af upphaflegri fjárfestingu þurfi viðskiptavinurinn að greiða mismuninn þannig að eigið fé nái ofangreindum mörkum af markaðsvirði þess tíma (þetta er kallað margin call). Því er talað um að eigendur bréfa sem eru keypt með lánum séu með veika stöðu í þeim.

Lántökur jukust um 27% á síðasta ársfjórðungi 1999

Á síðasta ársfjórðungi síðastliðins árs jukust slíkar lántökur um 27%! Fyrstu mánuði þessa árs héldu þessar lántökur áfram að aukast og var aukningin litlu minni en hún var á ársfjórðungnum áður. Þrátt fyrir miklar hækkanir á verðum hlutabréfa er hlutfall slíkra lána á móti heildarmarkaðsvirði hlutabréfa orðið meira (rúmlega 1,5%) en það var rétt áður en hlutabréfamarkaðurinn hrundi haustið 1987.

Eftir því sem lántökur jukust varð enn meiri eftirspurn eftir hlutabréfum og þá aðallega þeim sem tengd eru tækni- og líftæknigeiranum. Þau bréf snarhækkuðu í verði og sum fyrirtæki urðu allt í einu að tískufyrirtækjum sem voru að því er virtist góð kaup burtséð frá verði. Fréttaþjónustur á veraldarvefnum hafa blómstrað á þessu tímabili, gefandi ráð um heitustu hlutabréfakaupin hverju sinni með stóryrtum fyrirsögnum. Rétt er að benda á að flest þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera vel rekin með góðar vörur og þjónustu. Hins vegar var erfitt að réttlæta þær gífurlegu hækkanir á verði hlutabréfa á svo skömmum tíma.

Fjármálafyrirtæki herða reglur varðandi lán

Eftir því sem veikum fjárfestum fjölgaði fóru mörg fjármálafyrirtæki að herða reglurnar varðandi lán til hlutabréfakaupa. Farið var að gera lista hjá sumum þeirra með fyrirtækjum sem talin voru flokkast undir sérstaklega mikla áhættufjárfestingu. Hertar voru reglur til lána varðandi kaup í þeim fyrirtækjum. Hjá Charles Schwab eru nú t.d. um 300 fyrirtæki komin á slíkan lista. Síðastliðinn föstudag (14.4.) var boðum komið á framfæri til margra verðbréfasala í Bandaríkjunum um að meta rækilega hvort lána ætti meira til veikra fjárfesta, sérstaklega þeirra með hlutabréf í safni sínu sem lækkað höfðu töluvert undanfarið. Fjöldi veikra fjárfesta í þannig stöðu var augljóslega mikill eftir lækkanir undanfarna daga.

Áhrifin létu ekki á sér standa. Með skyndilegar neitanir um frekari lán til margra veikra fjárfesta gaf kaupþunginn allverulega eftir. Söluþunginn að sama skapi jókst þar sem margir veikir fjárfestar þurftu að fara að selja bréf á sama tíma til þess að geta greitt það sam á vantaði til þess að ná nauðsynlegu hlutfalli eigin fjár að markaðsvirði veiks hlutabréfasafns síns. Áhrifin voru því tvíþætt og að vissu leyti hafa "dóminó"-áhrif átt sér stað.

Ekki gleyma að gera ráð fyrir lækkunum

Hvaða lærdóm er hægt að læra af þessu? Ekkert nýtt, einfaldlega að rifja upp gamlar staðreyndir. Í fyrsta lagi að þegar verið er að taka lán til hlutabréfakaupa er nauðsynlegt að vera viðbúinn því að geta tekist á við lækkanir. Fyrir marga fjárfesta er þetta ekki vandamál, svo lengi sem slíkt sé innan skynsamlegra marka. Sumir eru hinsvegar ekki í stakk búnir til þess og eiga því að halda slíkum lántökum í lágmarki. Í öðru lagi er ávallt skynsamlegt að viðhalda dreifingu í hlutabréfasafni sínu. Jafn freistandi og það getur verið að setja allar fjárfestingar sínar í þann geira sem gefið hefur mest í fortíðinni getur slíkt ástand breyst á augabragði.

Þetta vekur einnig spurningar varðandi ástandið hér á Íslandi. Hversu stór hluti fjárfestinga í hlutabréfum hér á landi er í höndum veikra fjárfesta? Engar opinberar tölur eru til um slíkt en ljóst er að á gráa markaðnum (óskráð bréf, m.a. Íslensk erfðagreining) er það hlutfall afar hátt, líklega margföld sú tala sem nú er í Bandaríkjunum. Í ljósi þess vaknar sú spurning hvort setja eigi hér á landi svipaðar reglur og alríkislög í Bandaríkjunum kveða á um. Ýmsar innanhúsreglur eru nú þegar í gangi hjá innlendum fjármálafyrirtækjum. Án skýrrar opinberrar stefnu er hins vegar meiri hætta á að sveiflur á verði hlutabréfa hér á landi vegna veikra fjárfesta taki öfgafullar stefnur, sem geta orðið fjárfestum dýrkeyptar.

Höfundur starfar hjá SPH Fyrirtæki og fjárfestum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka