Litið er á hlutabréf sem besta langtímafjárfestingarkostinn. Már Wolfgang Mixa segist efast um að ávöxtun hlutabréfa næstu tuttugu árin verði jafngóð og sl. tuttugu ár og telur nokkuð víst að þeir sem leggja allan sinn langtímasparnað í hlutabréf eigi flestir eftir að verða fyrir vonbrigðum.
Ég leyfi mér að efast um að ávöxtun hlutabréfa næstu tuttugu árin verði jafngóð og sl. tuttugu ár og tel nokkuð víst að þeir sem leggja allan sinn langtímasparnað í hlutabréf eigi flestir eftir að verða fyrir vonbrigðum, einfaldlega vegna þess að búið er að keyra upp væntingar fram úr hófi. Það eru jafnvel góðar líkur á að ávöxtun hlutabréfa verði slakari á því tímabili en ávöxtun ríkisskuldabréfa.
Þetta kann að vera nær óhugsandi staðhæfing í dag. Erfitt er við fyrstu sýn að ímynda sér annað, sérstaklega ef litið er til þeirrar ávöxtunar sem Dow Jones-hlutabréfavísitalan hefur veitt undanfarin ár: Dow Jones Industrial Average hlutabréfavísitalan var þann 30. september árið 2000 10.651 stig en 30. september, 1981 850 stig. Meðaltalsávöxtun á ári á þessu tímabili var rúmlega 14% auk arðgreiðslna. Þetta eru tölur sem svíkja fáa. Dæmið verður aftur á móti dekkra þegar litið er til þeirrar ávöxtunar sem Dow Jones-hlutabréfavísitalan gaf árin þar á undan: Dow Jones Industrial Average hlutabréfavísitalan var 30. september, 1981 850 stig en 30. september, 1965 var hún 931 stig. Burtséð frá arðgreiðslum hefði fjárfestir sem keypti hlutabréf í samræmi við Dow Jones-hlutabréfavísitöluna á svipuðum tíma og Bítlarnir gáfu út Help!-hljómplötuna verið með tæplega 10% neikvæða nafnávöxtun tæpu ári eftir lát John Lennon. Rökrétt væri að álykta að Bandaríkin hafi átt í miklum efnahagslegum erfiðleikum á þessu tímabili, jafnvel kreppu. Þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna fjórfaldaðist hins vegar næstum því á þessu tímabili. Reyndar var hagvöxtur á þessu lítt gjöfula tímabili hlutabréfa meiri heldur en hagvöxturinn á því skeiði sem Dow Jones-hlutabréfavísitalan tólffaldaðist. Inn á milli hafði olíukreppan vissulega neikvæð áhrif árin 1974 og 1975 en mikið hagvaxtarskeið kom þó í kjölfarið. Hver getur skýringin þá verið?
Nú er ávöxtunarkrafa ríkisbréfa í Bandaríkjunum hins vegar aftur orðin það lág að hækkun hlutabréfa, tilkomin vegna enn frekari lækkunar vaxta og þar með ávöxtunarkröfu, er óðum að hverfa. Leiðin upp á við fyrir vexti er orðin lengri en niður á við, enda er hún á svipuðum slóðum og árið 1965. Óraunhæft er að halda að hlutabréf veiti jafngóða ávöxtun og undanfarna tvo áratugi þegar vextir ríkisbréfa eru orðnir svo lágir. Sagan frá 1965 til 1981 sýnir að hlutabréf ein og sér sem langtímafjárfesting geta verið ávísun á mikil vonbrigði þegar upp er staðið. Rökréttara væri að áætla að hagvöxtur og hin aukna framleiðni, aðallega tengd veraldarvefnum, verði helsti drifkraftur aukins hagnaðar og þ.a.l. virði hlutabréfa fyrirtækja. Samkvæmt því má áætla að ávöxtun hlutabréfa verði á bilinu 7-8% haldist ávöxtunarkrafa ríkisbréfa stöðug. Óskynsamlegt væri að veðja öllu á það.