Silfur hafsins og samskiptin við Austur-Evrópu

Ekkert land hefur á nýliðinni öld byggt afkomu sína hlutfallslega jafnmikið á útflutningi saltaðrar síldar og Ísland. Óhætt er að fullyrða að undir forystu Gunnars Flóvenz, fyrrverandi framkvæmdastjóra og síðar stjórnarformanns Síldarútvegsnefndar, hefur mikil björg verið færð í þjóðarbúið.

Hjörtur Gíslason
Þótt síldarsalan hafi ekki verið neinn dans á rósum og glíman við stærstu kaupendurna, Sovétríkin og fleiri Austur-Evrópulönd á aðalmarkaðssvæðinu, hafi oft verið nærri jafnerfið og Þór reyndist við Elli kerlingu, höfðu Gunnar og hans menn oftast sigur og sneru heim að austan með góða samninga.

Það er því ekki nema von að Gunnars sé getið í leyndarskjölum austurþýzkra stjórnvalda sem voru opinberuð fyrir nokkru. Þótti fulltrúum austurþýzka kommúnistaflokksins Gunnar oft óþægur ljár í þúfu og að viðskiptafulltrúarnir létu hann komast of langt í síldarsölumálunum þegar viðskiptin milli Íslands og Austur-Þýzkalands voru hvað mest á sjötta og sjöunda áratugnum.

Gunnar Flóvenz hóf störf sem sumarmaður hjá Síldarútvegsnefnd á framhaldsskólaárum sínum og réðst síðar sem forstöðumaður skrifstofu Síldarútvegsnefndar í Reykjavík er sú skrifstofa var stofnuð haustið 1950 að ósk síldarsaltenda. Hann réðst sem framkvæmdastjóri 1959 og gegndi því starfi í rúm 30 ár, eða til 1990 er hann tók við formannsstarfinu sem hann gegndi síðustu átta starfsárin.

Félög síldarsaltenda stofnuð

Hvernig var sölu og söltun síldarinnar stjórnað þegar þú komst að þessum málum og hverju þurfti að breyta?

"Sem forstöðumanni Reykjavíkurskrifstofunnar var mér orðið betur og betur ljósir ýmsir annmarkar á því fyrirkomulagi sem nefndinni var ætlað að starfa eftir samkvæmt gildandi lögum," segir Gunnar. "Því var það að ég gekkst fyrir því 1954 ásamt nokkrum forystumönnum saltenda á svæðinu að stofna til sérstakra samtaka framleiðenda sem við nefnum Félag síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi. Jafnframt breyttum við nafninu á sunnlenzku saltsíldinni úr faxasíld í suðurlandssíld sökum þess hve faxasíldarnafnið hafi fengið á sig vont orð þegar mikið var saltað af henni haustið 1935 vegna aflabrests norðanlands og austan.

Tveim árum síðar, eða 1956, var stofnað tilsvarandi félag norðanlands og austan undir nafninu Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi.

Með stofnun þessara félaga gjörbreyttist öll starfsaðstaða og á næstu árunum var tekin upp æ nánari samvinna milli Síldarútvegsnefndar og saltenda og jafnframt tókst að eyða ýmsum ágreiningsmálum sem upp höfðu komið við einstaka saltendur framan af starfsferli nefndarinnar.

Það var ekki sízt þessari bættu samvinnu að þakka að sá árangur náðist að Síldarútvegsnefnd varð áratugum saman stærri útflytjandi saltaðrar síldar en þekktist í nokkru samkeppnislanda okkar," segir Gunnar.

Að mestu í höndum Norðmanna

Síldveiðar við Ísland hófust árið 1868 en það ár veiddi norskur leiðangur frá Mandal rúmlega 2.000 tunnur sem saltaðar voru á Seyðisfirði og fluttar út til Stokkhólms þá um haustið. Óverulegt magn hafði þó áður verið saltað og flutt út í tilraunaskyni.

Söltunin og útflutningurinn á síldinni var næstu áratugina að mestu í höndum Norðmanna og sömuleiðis eftir að hið eiginlega síldarævintýri hófst skömmu eftir aldamótin með tilkomu herpinóta- og reknetaveiðanna en Svíar og Danir bættust síðar í hópinn og urðu Svíar langstærstu kaupendurnir.

Hlutur Íslendinga í veiðum og söltun síldarinnar jókst smám saman og komst að mestu í hendur Íslendinga einna er Bretar hindruðu útflutning til Norðurlandanna þegar líða tók á fyrri heimsstyrjöldina.

Eftir að styrjöldinni lauk hófst tímabil það sem að lokum leiddi til stofnunar Síldarútvegsnefndar 1935.

Á þessu tímabili ríkti slíkt öngþveiti í framleiðslu- og sölumálum saltsíldarinnar að framleiðendur urðu hvað eftir annað að leita til stjórnvalda um úrbætur og ber mönnum saman um að síldarsölumálin hafi þá flest árin verið meðal erfiðustu viðfangsefna sem Alþingi hafði til umfjöllunar.

"Strandmenn Íslands"

Gerðar voru ár eftir ár margítrekaðar tilraunir til að fá saltendur til að sameinast í einn félagsskap til að koma skipulagningu á söltunina og annast sölu síldarinnar. En tilraunir þessar báru engan árangur þrátt fyrir vilja stjórnvalda og þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum til að koma til aðstoðar. Alþingi samþykkti m.a. í því skyni lög sem heimiluðu ríkisstjórninni að veita félagi, sem framleiðendur stofnuðu, einkasölu á allri saltsíldarframleiðslunni, jafnvel þótt ekki nema 20 úr hópi þeirra kæmu sér saman um stofnun slíkra sölusamtaka. Þessi tilraun bar heldur engan árangur enda sagði Jónas Jónsson frá Hriflu, einn af áhrifamestu þingmönnum þessa tímabils, í umræðum um síldarsölumálin: "Það er ljóst að ekki er hægt að meðhöndla þessa menn (þ.e. síldarsaltendur) öðruvísi en sem strandmenn. Þetta eru mestu strandmennirnir í okkar þjóðfélagi. Þeir hafa ekki einungis siglt eigin skipum í strand, heldur komizt nærri því að strandsigla fjármálaskútu þjóðarinnar." Slíkur var tónninn í fjölda þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum.

Í umræðunum um Síldareinkasöluna lýsti Ólafur Thors, sem þá var í stjórnarandstöðu, því yfir í þingræðu að hann og félagar hans teldu það "óumflýjanlegt að gera óvenjulegar ráðstafanir" til þess að bæta síldarverzlunina og kvaðst enn fremur viðurkenna að "hvergi beri jafnlítið á kostum og jafnmikið á göllum frjálsrar verslunar og í þessari verzlunargrein".

Kröfur um úrbætur úr öllum áttum

Svo ótrúlegt sem það kann að virðast í dag, og sem dæmi um ástandið í síldarsölumálunum á þessum árum, urðu þau óvæntu tíðindi að einn þekktasti síldarsaltandinn, Óskar Halldórsson, gekk svo langt í víðkunnri blaðagrein að krefjast þess að ríkið tæki í sínar hendur bæði söltun síldarinnar og útflutning hennar.

Kröfur um úrbætur komu úr öllum áttum í þjóðfélaginu, ef undan eru skildir sumir þeirra síldarsaltenda sem "leppuðu" fyrir ýmsa sænska síldarkaupmenn sem ólmir vildu hindra samstöðu síldarsaltenda. Einn af forsvarsmönnum þessa hóps var Daninn Andreas Godtfredsen sem Halldór Laxness nefnir Gottesen eða Gotta í Guðsgjafaþulu og sem síðar hrökklaðist af landi brott.

Þetta ástand leiddi til þess að á Alþingi voru hinn 15. apríl 1928 samþykkt lög um ríkiseinkasölu á allri útfluttri saltsíld og nefndist stofnunin, sem fékk þetta hlutverk, Síldareinkasala Íslands. Stjórn hennar skipuðu þrír fulltrúar kjörnir af Alþingi, einn tilnefndur af útgerðarmönnum síldveiðiskipa og einn tilnefndur af Verkalýðssambandi Norðurlands. Af stjórnarnefndarmönnum Einkasölunnar voru tveir úr hópi helztu síldarsaltenda landsins, þeir Ásgeir Pétursson og Björn Líndal.

Árið eftir var gengið enn lengra í ríkisafskiptum og ný lög samþykkt á Alþingi, þar sem m.a. var kveðið á um að sjálf söltun síldarinnar skyldi einnig sett í hendur Einkasölunnarsem semdi síðan við saltendur um að þeir tækju að sér söltunina sem einskonar verktakar fyrir Einkasöluna. Einkasalan starfaði aðeins í fjögur ár og var tekin til gjaldþrotaskipta í desember 1931 eftir miklar hrakfarir.

Blómaskeið leppmennskunnar

"Menn hafa löngum deilt um ástæðurnar fyrir þessum óförum Einkasölunnar," segir Gunnar. "Við ýtarlega skoðun á fjölda heimilda frá þessum tíma hlýtur maður að komast að þeirri niðurstöðu að ástæðurnar hafi verið margvíslegar og vekur það furðu að menn skyldu ekki sjá það fyrir að umrædd viðbótarlög hlytu að leiða til enn meiri ófarnaðar enda var mestallt frumkvæði tekið úr höndum saltenda. Að vísu skal það viðurkennt að enginn gat séð fyrir heimskreppuna miklu sem skall á skömmu eftir stofnun Einkasölunnar."

Eftir gjaldþrot síldareinkasölunnar sótti aftur í sama horf og verið hafði og blómaskeið "leppmennskunnar" svonefndu hófst á ný. Gerðar voru á enn einu sinni tilraunir til að koma á allsherjarsölusamtökum framleiðenda en um það náðist engin samstaða frekar en fyrri daginn. Þó tókst framleiðendum matjessíldar í skjóli einkasölu, sem þeim var veitt með bráðabirgðalögum 31. júlí 1934, að mynda með sér samtök um sölu á metjessíld en þau samtök leystust fljótlega upp, m.a. vegna innbyrðis ósamkomulags framleiðenda. Heiftúðugar umræður um ástandið héldu áfram og lögðu margir þar orð í belg og ekki voru stóryrðin spöruð. Skáldið Steinn Steinarr sagði t.d. í blaðagrein er hann ritaði á Siglufirði 1933 að senda ætti "alla síldarspekúlanta í eitt skipti fyrir öll veg allrar veraldar".

Síldarútvegsnefnd stofnuð

Í desember 1934 komu saltsíldarmálin enn einu sinni til kasta Alþingis er lagt var fram lagafrumvarp um Síldarútvegsnefnd og útflutning á saltaðri síld. Nokkur ágreiningur varð á þinginu um einkaréttarákvæði frumvarpsins enda voru hrakfarir Síldareinkasölu Íslands mönnum þá enn í fersku minni. Samkomulag náðist þó að lokum um að aðeins yrði um að ræða heimildarákvæði varðandi einkaréttinn enda skyldi einn aðaltilgangurinn með stofnun Síldarútvegsnefndar vera sá að reyna að koma í veg fyrir offramleiðslu saltaðrar síldar og undirboð á mörkuðunum. Í því augnamiði skyldi nefndin skipuleggja og hafa eftirlit með framleiðslunni, löggilda útflytjendur með þeim skilmálum sem hún teldi nauðsynlega um löggildingartíma, framboð og lágmarksverð og annað það sem tryggði sem öruggasta sölu á saltsíldaframleiðslu landsmanna, eins og það var orðað í frumvarpinu.

Samkvæmt frumvarpinu skyldi Síldarútvegsnefnd enn fremur hafa forgöngu um markaðsleit og annast um að gerðar yrðu tilraunir með útflutning á saltaðri síld sem verkuð yrði með öðrum aðferðum en tíðkaðar voru.

Frumvarpið var samþykkt í efri deild Alþingis 19. desember 1934 og í neðri deild 22. desember. Það vekur athygli að þrátt fyrir slæma reynslu af fyrri afskiptum Alþingis greiddu aðeins 6 þingmenn samtals í báðum deildum atkvæði gegn frumvarpinu, þ.e.a.s. 3 í hvorri deild.

Síldarútvegsnefnd tók til starfa 1. marz 1935. Framan af hafði nefndin fyrst og fremst eftirlit með söltun, sölu og útflutningi saltsíldar og löggilti útflytjendur, eins og áður er sagt. Árið 1945 fól nýsköpunarstjórn Ólafs Thors Síldarútvegsnefnd að annast sölu og útflutning á allri saltsíldarframleiðslunni en fram að þeim tíma hafði nefndin aðeins séð um sölu á léttverkaðri síld, svonefndri matjessíld.

Eins og áður er sagt var tekið fram í lögunum að sjávarútvegsráðherra væri heimilt að veita Síldarútvegsnefnd einkaleyfi til útflutnings og var slík heimild aldrei veitt nema til eins árs í senn. Einkaleyfi þetta var ekki veitt nema með samþykki viðkomandi hagsmunaaðila. Síldarútvegsnefnd sótti ekki um slíkt leyfi um mjög langt árabil og óskaði margoft eftir því að heimildarákvæði þetta yrði fellt niður úr lögunum þar sem það olli sífelldum misskilningi.

Afstaða hagsmunaaðila til sölufyrirkomulagsins

Í byrjun september 1994 skipaði sjávarútvegsráðherra sjö manna starfshóp allra helztu hagsmunaaðila, sem gera skyldi tillögur sem miði að því "að auka nýtingu síldar til manneldis og nýta betur þá möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar, sem felast í veiðum og vinnslu síldar". Starfshópi þessum var einnig falið að endurskoða lögin um Síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar eins og óskað hafði verið eftir af saltendafélögunum og síldarútvegsnefnd.

Starfshópurinn kannaði m.a. viðhorf beggja saltendafélaganna til sölufyrirkomulags saltsíldarinnar og birti í skýrslu sinni afstöðu þeirra til málsins svo og samþykktir þær sem saltendafélögin höfðu gert í sambandi við umfjöllun á Alþingi um síldarútflutningsmálin en þar segir m.a.: "Félög síldarsaltenda hafa frá stofnun verið í nánu samstarfi við Síldarútvegsnefnd og fjallað ítarlega um sölu- og markaðsmál saltaðrar síldar. Margsinnis hafa fundir félaganna séð ástæðu til að láta í ljós ánægju sína með þann árangur sem náðst hefur við markaðssetningu síldarinnar og stjórn framleiðslunnar.

Skoðanakannanir meðal saltenda hafa leitt í ljós að hver einasti framleiðandi hefur lýst stuðningi sínum við núverandi sölufyrirkomulag."

Breytinga margsinnis óskað

Um tillögur starfshópsins varðandi breytingar á lögunum um Síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar segir svo í skýrslunni:

"Eins og fram hefur komið hér að framan eru lögin um Síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar komin til ára sinna og tímabært orðið að gera á þeim ýmsar breytingar en Síldarútvegsnefnd hefur margsinnis óskað eftir að það verði gert.

Í umfjöllun hér að framan um þingsályktunartillögu um Síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar og afstöðu félaga síldarsaltenda kemur fram eindreginn vilji framleiðenda til þess að byggja í grundvallaratriðum á núverandi fyrirkomulagi við útflutning saltsíldar."

Síldarútvegsnefnd laumað inn á fjárlög

En svo skipast veður í lofti?

"Nokkru síðar, eða eftir að starfshópurinn hafði skilað skýrslu sinni til ráðherra, varð vægast sagt óvæntur atburður sem breytti skyndilega stöðu allra þessara mála," segir Gunnar. "Þá kom í ljós að embættismenn á vegum fjármálaráðuneytisins höfðu, án þess að gera viðkomandi aðilum viðvart, laumað inn í nýtt frumvarp um fjárreiður ríkisins ákvæði þess efnis að Síldarútvegsnefnd skyldi framvegis tekin inn á fjárlög og þar með teljast eign ríkisins. Sú eina skýring fylgdi þessum dæmalausa gjörningi var "að Síldarútvegsnefnd hefði aldrei verið á fjárlögum en nú hafi verið ákveðið að taka hana inn á fjárlög samkvæmt skilgreiningu nýrra fjárreiðulaga," eins og það var orðað. Hér var um grófa eignaupptöku að ræða þar sem Síldarútvegsnefnd hafði aldrei verið ríkisstofnun og aldrei fengið grænan eyri úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum. Aðeins fengið 2% söluþóknun af fob-verði þeirrar saltsíldar sem hún seldi og flutti út fyrir saltendur og 5% sölulaun vegna rekstrarvara þeirra sem nefndin hafði til sölu að ósk saltenda.

Okkur þótti það einnig meira en lítið furðulegt að embættismenn á vegum þáverandi fjármálaráðherra skyldu standa að því að reyna að breyta Síldarútvegsnefnd í ríkisstofnun á sama tíma og það væri yfirlýstur vilji ríkisstjórnarinnar að draga úr afskiptum ríkisvaldsins af atvinnuvegunum.

Til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning skal tekið fram að umræddur gjörningur var framinn skömmu fyrir tíð núverandi fjármálaráðherra.

Íslandssíld hf.

Þar sem frumvarpið var orðið að lögum, þegar þessi gjörningur kom í ljós, boðaði ég strax fund í Síldarútvegsnefnd og lagði þar fram tillögu um að nefndin beiti sér fyrir því, að höfðu samráði við félög síldarsaltenda, að stofnuninni yrði svo fljótt sem unnt væri breytt í hlutafélag í eigu saltsíldarframleiðenda og að gildandi lög um Síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar yrðu felld úr gildi.

Í tillögunni var jafnframt tekið fram að hliðsjón hefði einnig verið höfð af þeim breytingum sem verið var að gera á rekstrarfyrirkomulagi annarra helztu útflutningssamtaka sjávarútvegsins.

Tillagan var samþykkt samhljóða og einnig á sameiginlegum fundi stjórna beggja saltendafélaganna. Með aðstoð þáverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi fjármálaráðherra tókst að koma í kring þeirri breytingu sem fólst í áðurnefndri tillögu minni og tók þá hlutafélagið "Íslandssíld" við hlutverki Síldarútvegsnefndar sem þá hafði starfað í hvorki meira né minna en í 63 ár."

Ótrúlega heppinn með starfsfólk

- Var ekki erfitt að slíta sig frá framkvæmdastjórastarfinu eftir svo langan og áhugaverðan starfsferil?

"Það var eiginlega auðveldara en ég hafði átt von á, bæði vegna þess að ég tók þá við starfi sem stjórnarformaður og ekki síður vegna þess að við framkvæmdastjórastarfinu tók frábær starfsmaður, Einar Benediktsson, núverandi forstjóri Olís. Hann hafði um langt árabil starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri minn og því öllum hnútum kunnugur. Annars hef ég alla tíð verið ótrúlega heppinn með samstarfsfólk.

Þegar ég hóf störf sem sumarmaður hjá Síldarútvegsnefnd á Siglufirði var Jón Stefánsson framkvæmdastjóri skrifstofunnar þar. Hann var meðal greindustu manna sem ég hef kynnzt um dagana og af honum lærði ég mikið. Birgir Kjaran sagði mér eitt sinn að reynt hefði verið að fá Jón eða Sigurð Jónsson frv. framkvæmdastjóra Síldarverksmiðja ríkisins til að gefa kost á sér í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar nyrðra en báðir hefðu þverneitað og heldur viljað sinna síldarmálum en þingmennsku."

Fjandans nafnið á fyrirtækinu

Hvaða síldarsaltandi er þér minnisstæðastur frá starfsferli þínum?

"Þessu get ég ekki svarað, þeir eru svo ótrúlega margir minnisstæðir. Þegar ég byrjaði sem forstöðumaður hér syðra voru flestir síldarsaltendurnir langtum eldri en ég og það lá við að ég fyndi í byrjun fyrir hálfgerðri minnimáttarkennd út af þessum mikla aldursmun.

Eitt sinn er Óskar Halldórsson kom í heimsókn til mín á skrifstofuna segir hann allt í einu upp úr þurru: "Hvað ert þú annars gamall, Gunnar?" Ég sagði honum að geta. Hann velti þessu fyrir sér og sagðist gizka á að ég væri 35 ára. Ég var þá aðeins 25 ára og dró þetta vafalaust úr aldursáhyggjum mínum."

Hvert finnst þér að hafi verið erfiðasta vandamálið sem þú áttir við að glíma á þessum langa starfsferli?

"Ég hygg að fyrir utan austurviðskiptin hafi það verið fjandans nafnið á fyrirtækinu, því almenningur gengur út frá því að allar nefndir séru af hinu illa. Annars rákum við Síldarútvegsnefnd marga síðustu áratugina sem sölusamtök framleiðenda eins og SH og SÍF."

Í taumi hjá Gunnari Flóvenz

Í leyndarskjölum þeim sem Valur Ingimundarson sagnfræðingur hefur rannsakað í Austur-Berlín um samskipti Íslands og Austur-Þýzkalands á kaldastríðsárunum, er víða vikið að verzlunarviðskiptum landanna. Meðal annars er þar að finna frásögn af sögulegum fundi Íslandsdeildar austurþýzka kommúnistaflokksins (þ.e. starfsliðs verzlunarskrifstofunnar) sem haldinn var í Reykjavík 9. febrúar 1961.

Á fundinum var deilt harkalega á meint agabrot Karls Holmelin, yfirmann skrifstofunnar, og hann ásakaður fyrir að vera í taumi hjá Gunnari Flóvenz og keypt allt of mikið af Síldarútvegsnefnd en lítt sinnt sölu á austurþýzkum vörum til Íslands á móti.

Þar sem hér er um fróðlegar upplýsingar að ræða um verzlunarviðskiptin við Austur-Þýzkaland á kaldastríðsárunum og ástandið á verzlunarskrifstofunni, leitaði blaðið nánari upplýsinga hjá Gunnari um þessi mál.

Gunnar sagði að einn mesti vandinn í sambandi við sölu saltsíldarinnar hafi verið sá að stærstu markaðssvæðin skyldu lenda austan járntjalds að síðari heimsstyrjöldinni lokinni. Auk þess hefðu gífurlega háir innflutningstollar á saltsíld valdið erfiðleikum varðandi viðunandi sölu til þáverandi landa Efnahagsbandalagsins. "Það var því afar áríðandi," sagði Gunnar, "að ná sem mestum og beztum sölusamningum við austurblokkina. Þá gerði vaxandi veiði norðurlandssíldar á þessum árum þörfina fyrir aukna markaði enn brýnni.

Bann utanríkisráðherra sniðgengið

Vandi okkar varðandi Austur-Þýzkaland var m.a. sá að Íslenska vöruskiptafélaginu svonefnda var af stjórnvöldum falið að annast vöruskiptaverzlunina við Austur-Þýzkaland á þessum árum, en að félaginu stóðu Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband íslenzkra samvinnufélaga og Félag íslenzkra stórkaupmanna.

Við reyndum að fá aðild að félaginu en var synjað. Auk þess lagði þáverandi utanríkisráðherra, Guðmundur Í. Guðmundsson, bann við því að Síldarútvegsnefnd fengi að taka þátt í viðræðum við austurþýzk stjórnvöld eða stofnanir þeirra þar sem nefndin starfaði samkvæmt sérstökum lögum um útflutning saltsíldar.

Sú skýring var gefin á þessu banni að vestrænir bandamenn okkar kynnu að líta á aðild Síldarútvegsnefndar að slíkum viðskiptaviðræðum sem brot á ríkjandi samkomulagi um Hallstein-kenninguna svonefndu.

Mér þótti þessi skýring ákaflega langsótt og ósanngjörn, ekki sízt með hliðsjón af þeirri staðreynd að vesturþýzk stjórnvöld aðstoðuðu á sama tíma vesturþýzka útflytjendur við sölu á vesturþýzkum fiskafurðum til austurhluta landsins, þar á meðal saltaðri síld. Mig minnir að þessi samskipti þýzku ríkjanna hafi í skýrslum vesturþýzku hagstofunnar verið nefnd "Binnendeutscher Handel" og var ekkert farið leynt með þau. Okkur var einnig vel kunnugt um ýmsar aðgerðir annarra vestrænna ríkja til stuðnings útflutningi fiskafurða til Austur-Þýzkalands.

Með hliðsjón af þessum staðreyndum ákvað ég að sniðganga bannið og sneri mér beint til austurþýzku verzlunarskrifstofunnar sem leiddi til þess að viðræður voru teknar upp í Austur-Berlín við ríkisfyrirtækið DIA-Nahrung. Þrátt fyrir alls kyns erfiðleika, sem á því voru að eiga við austurþýzka kerfið, tókust um síðir samningar sem komu sér ákaflega vel fyrir alla hlutaðeigandi aðila hér heima. M.a. gátum við nýtt til söltunar fyrir austurþýzka markaðinn mikið af smærri síldinni sem vestrænu markaðirnir, svo sem í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku, voru ekki reiðubúnir að taka við. Auk þess náðist all gott söluverð fyrir síldina.

Þessi saltsíldarviðskipti við Austur-Þjóðverjana stóðu yfir í tæpan áratug og hefðu trúlega haldið áfram ef gífurlegir greiðsluerfiðleikar þeirra hefðu ekki komið til. Þeir þurftu að lokum að biðja Sovétmenn um lán til að geta staðið í skilum við okkur, en það er önnur saga."

Viðskipti og pólitík

Það hefur líklega margt gerst og mikið gengið á á þessum tímum kalda stríðsins. Getur þú sagt mér eitthvað frá glímunni við Rússana og varst þú t.d. var við að pólitík væri blandað í viðskipti landanna?

"Auðvitað blandaðist pólitík í heildarsamskipti landanna en ég minnist þess ekki að pólitík hafi borið sérstaklega á góma í samningaviðræðum okkar um saltsíldina.

Þegar rætt er um þessi mál er rétt að hafa það í huga að með viðskiptasamningi þeim, sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði við Sovétríkin 1. ágúst 1953, opnaðist nýr og stór markaður fyrir íslenzkar útflutningsvörur. Samningurinn hafði mikla þýðingu fyrir landið í heild, það er að segja svo framarlega sem samningar tækjust milli viðskiptaaðila. Hér ríkti hálfgert kreppuástand og atvinnuleysi. Bretar höfðu lagt löndunarbann á allan íslenzkan fisk vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar úr þrem í fjórar sjómílur. Af þeim sökum hlóðust upp birgðir af freðfiski og einnig voru vandræði með sölu á ýmsum öðrum útflutningsvörum okkar.

Ýmsir bandamenn okkar í NATO litu þessi nýju viðskiptatengsl okkar óblíðum augum þótt þeir sjálfir sæktu fast á að koma sínum eigin vörum á sovézka markaðinn, ekki sízt illseljanlegum umframbirgðum af bandarísku korni."

Sögulegar viðskiptaviðræður

Telur þú, Gunnar, að Sósíalistaflokkurinn hafi greitt fyrir viðskiptum okkar við Sovétríkin?

"Um það get ég ekkert tjáð mig. Þeir voru ekkert í neinu sambandi við okkur saltsíldarmenn nema hvað Lúðvík Jósepsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra fylgdist jafnan af áhuga með sölutilraunum okkar. Ég dreg ekki í efa að þeir hafi gert sitt ýtrasta til að auka viðskiptatengslin þótt það hafi mislukkast afleitlega í sögulegum samningaumleitunum um nýjan þriggja ára viðskiptasamning 1965.

Illa hafði þá gengið að fá Sovétmenn til að taka upp viðræður nema gengið yrði fyrir fram að ákveðnum skilyrðum sem íslenzk stjórnvöld gátu ekki samþykkt og var tregða Rússanna farin að valda alvarlegum vandræðum varðandi samningaumleitanir um einstakar útflutningsafurðir okkar.

Sovézk yfirvöld féllust loks um mitt sumar á að taka við íslenzkri samninganefnd án umræddra skilyrða og kom íslenzka nefndin, undir forystu dr. Odds Guðjónssonar, til Moskvu í lok júlí.

Það vakti nokkra athygli að viðreisnarstjórnin, sem þá var við völd, hafði skipað Lúðvík Jósepsson, einn áhrifamesta mann Sósíalistaflokksins, í samninganefndina, væntanlega í þeirri trú að það myndi greiða fyrir samkomulagi í Moskvu.

Eftir að við komum til Moskvu skýrði Lúðvík okkur frá því að nefnd á vegum Sósíalistaflokksins væri einnig þangað komin til að vinna að því að greiða götu okkar hinna bak við tjöldin. Flokksnefndin hafði þó aldrei samband við okkur nema hvað Lúðvík lét okkur fylgjast með því helzta sem hjá þeim gerðist.

En svo fór, því miður, að þrátt fyrir allan þennan hernaðarviðbúnað og þriggja vikna samningsþóf náðist ekkert samkomulag og héldum við heim samningslausir.

Ég minnist þess enn í dag að vonbrigði Lúðvíks voru slík að hann þáði ekki veitingar sem Gribkov, formaður sovézku nefndarinnar, bauð upp á á Sheremetyevo-flugvelli fyrir brottför okkar og hélt beinustu leið út að flugvélinni án þess að kveðja Rússana.

Þessi niðurstaða og það sem gerðist bak við tjöldin þessar síðsumarsvikur í Moskvu 1965 sannfærðu mig um það að oft hafi of mikið verið gert úr áhrifum Sósíalistaflokksins á verzlunarviðskipti landanna, sagði Gunnar Flóvenz.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK