Verðbólga mælist 3,2% á evrusvæðinu og hefur aldrei verið meiri frá stofnun myntbandalagsins árið 1999 samkvæmt frétt frá Hagstofu Evrópu. Mikill þrýstingur er á Seðlabanka Evrópu um lækka stýrivexti en evran er í hæstu hæðum gagnvart Bandaríkjadal og verð á olíu fór yfir 103 dali tunan fyrr í dag.
Á sama tíma hefur atvinnuleysi aldrei mælst jafn lítið á svæðinu eða 7,1% í janúar.
Clemente De Lucia, hagfræðingur hjá franska bankanum BNP-Paribas, segir að sífellt erfiðara verði fyrir Seðlabanka Evrópu að taka ákvarðanir í vaxtamálum þar sem hagvöxtur er að dragast saman og vöruverð að hækka á evrusvæðinu. Það sem blasi við er að samdráttur í evrópsku efnahagslífi er staðreynd. „Auknar áhyggjur um stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum og hátt olíuverð ásamt hverfulum fjármálamarkaði og styrkingu evrunnar er greinilega að hafa áhrif," segir de Lucia í samtali við AFP fréttastofuna.
De Lucia bætir við að á sama tíma og verðbólga virðist ætla að haldast áfram há næstu mánuði vegna hás olíuverðs og matarverðs þá ætti samdráttur í efnahagslífinu að draga úr verðbólgu hægt og bítandi þannig að hún verði orðin 2% í árslok. Því telur hann að Seðlabanki Evrópu eigi að fara í lækkunarferli stýrivaxta fljótlega.
En svo virðist sem bankastjórn Seðlabanka Evrópu sé ekki á sama máli og hagfræðingurinn því á miðvikudag sagði Axel Weber, seðlabankastjóri Þýskalands en hann situr í bankastjórn Seðlabanka Evrópu, að verðbólguþrýstingur væri vanmetinn af þeim sem telja að stýrivaxtalækkun sé í nánd hjá bankanum.
Á sama tíma vara dálkahöfundar í viðskiptaritum við ástandinu og segja hættu á kreppuverðbólgu, það er þegar saman fer aukið atvinnuleysi og þensla neysluverðs, vera yfirvofandi í Evrópu. Taka þeir þar undir með bandarískum starfsfélögum sem telja að slíkt hið sama vofi yfir í Bandaríkjunum.