Gengi krónunnar hefur lækkað um 5,92% það sem af er degi en gengisvísitalan stendur í 152,05 stigum og hefur aldrei í sögunni verið hærri en hæst fór hún áður í 151,4 í nóvemberlok 2001. Mikil velta er á millibankamarkaði eða rúmir 40 milljarðar króna og samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði Glitnis er þetta mesta sveifla á gengi krónunnar innan dags sem menn muna eftir.
Evran komin yfir 118 krónur
Gengi Bandaríkjadals er 74,95 krónur, evran er 118,20 krónur, og hefur aldrei verið hærri, og pundið 150,33 krónur.
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að lækkun á gengi krónunnar skýrist meðal annars af almennum flótta úr vaxtamunarviðskiptum á heimsvísu og sá afsláttur sem gefinn er af vaxtamun í framvirkum samningum og gjaldeyrisskiptasamningum með krónu þessa dagana.
„Hávaxtamyntir hafa almennt gefið mikið eftir í kjölfar falls Bear Stearns. Til að mynda hefur tyrkneska líran lækkað um 3,4% og suður-afríski randinn um 3,5% gagnvart evru það sem af er degi. Áhættufælni er geysimikil á mörkuðum og ótti manna verulegur um að fleiri fjármálafyrirtæki lendi í áþekkum kröggum og Bear Stearns á næstunni.
Við þetta bætist svo að vaxtamunur
í framvirkum samningum og skiptasamningum með krónur gagnvart evru og
Bandaríkjadollar er mun minni en skammtímavextir í löndunum þremur gefa
til kynna. Þannig er ábati af vaxtamunarviðskiptum í þessum
fjármálaafurðum að sama skapi minni en ætla mætti og kostnaðurinn við
skortstöðu gegn krónu einnig," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.
FL Group lækkar um 7,3%
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 3,2% það sem af er degi. FL Group hefur lækkað um 7,3%, Færeyjabanki hefur lækkað um 6,7% og Exista um 5,4%.
Sömu sögu er að segja af öðrum norrænum kauphöllum. Í Ósló nemur lækkunin 2,4%, Kaupmannahöfn 1,8%, Stokkhólmi 3% og Helsinki 2,9%. Samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur lækkað um 3%.