Hagnaður sænsku tískuvörukeðjunnar Hennes & Mauritz jókst um 14% á öðrum ársfjórðungi. Skýrist hagnaðaraukningin einkum af fjölgun verslana og lægri kostnaðar við innkaup vegna gengislækkunar Bandaríkjadals.
Nam hagnaður H&M, sem er önnur stærsta fatakeðja Evrópu, 3,94 milljörðum sænskra króna, tæpum 52 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 3,47 milljarða sænskra króna á sama tímabili í fyrra.
Hlutabréf H&M hækkuðu um 6,72% í Kauphöllinni í Stokkhólmi í morgun.
Sala H&M jókst um 6,72% og var 21,61 milljarður sænskra króna en var 20,05 milljarðar sænskra króna á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Sala í verslunum sem voru starfandi á báðum tímabilum dróst saman um 2% á milli ára.
Þann 31. maí sl voru 1.593 H&M verslanir starfræktar í heiminum en þann sama dag í fyrra voru þær 1.420 talsins. Stefnt er að því að opna 139 nýjar H&M verslanir fyrir árslok 2008.