Talið er að bresk skattayfirvöld muni ákæra um 300 breska auðkýfinga, sem eiga bankareikninga í Liechtenstein, fyrir skattsvik. Gera þau ráð fyrir að endurheimta um 300 milljónir sterlingspunda, þ.e. um 48 milljarða íslenskra króna, í vangreidda skatta, frá þessum einstaklingum.
Eru auðkýfingarnir grunaðir um að hafa skotið undan samtals rúmum einum milljarði punda, sem þeir hafi lagt inn á bankareikinga í Liechtenstein og ekki greint breskum skattayfirvöldum frá, að því er segir í frétt á fréttavef BBC-fréttastofunnar. Þar segir jafnframt að ekki sé útilokað að einhverjir hinna grunuðu muni semja um greiðslu skattskuldar sinnar áður en til dómsmáls kemur.
Haft er eftir Paul Franklin, talsmanni breskra skattyfirvalda, í frétt BBC, að einstaklingarnir sem um ræðir séu mjög efnaðir. Þeir hafi notað þá leynd sem hvíli yfir reikningum í bönkum í Liechtenstein til að sleppa undan því að standa skil á lögbundnum skattgreiðslum í Bretlandi. Þá kemur fram í fréttinni að skattayfirvöld í Þýskalandi, Bandaríkjunum og í fleiri löndum séu einnig að skoða sambærileg mál.
Guðrún Jenný Jónsdóttir, forstöðumaður stjórnsýslusviðs Ríkisskattstjóra, segir það ekki launungarmál að embættið hafi sent fyrirspurn til þýskra yfirvalda vegna þessa máls. Hún segist hins vegar ekkert geta tjáð sig um hvað muni koma út úr því á þessu stigi.