Breska viðskiptablaði Financial Times fjallar í dag um árshlutauppgjör íslensku bankana og segir þau sýna, að ekki sé ástæða til að óttast kerfisbundna fjármálakreppu á Íslandi. Uppgjörin sýni raunar að alþjóðleg efnahagsniðursveifa hafi haft sín áhrif á afkomu bankanna en þó ekki afgerandi.
Blaðið segir, að óttast hafi verið að íslensku bankarnir myndu lenda í erfiðleikum vegna þess að alþjóðleg lausafjárkreppa hefur gert það að verkum að lánsfé er orðið mun dýrara en áður. Þetta kynni að koma sérstaklega illa við íslensku bankana vegna þess að þeir hefðu aðalleg fjármagnað hraða og alþjóðlega útrás sína með erlendu lánsfé.
Þessar áhyggjur hafi síðan leitt til þess, að skuldatryggingarálag íslensku bankanna hefur hækkað verulega að undanförnu og var komið yfir 1000 punkta.
Financial Times segir að uppgjör bankanna fyrir annan ársfjórðung bendi hins vegar ekki til þess að hrun sé yfirvofandi. Þvert á móti sýni þau að bankarnir hafi brugðist við breyttri stöðu með ýmsum hætti, m.a. að auka áherslu á innlán.
Vísbendingar séu þó um að lánasafn bankanna sé að hrörna og greiðslur á afskriftarreikninga hafi aukist. Hins vegar sé eiginfjárhlutfall bankanna áfram hátt og lausafjárstaðan góð og þeir séu búnir að tryggja sér fjármögnun fyrir næsta ár.