Verð á hráolíu hækkaði um 16,37 dali tunnan á markaði í New York í dag og er það mesta hækkun á olíuverði á einum degi í sögunni. Um tíma í dag hækkaði verðið um 25 dali tunnan en lækkaði á ný undir lok viðskiptadagsins.
Ástæða verðhækkunarinnar er m.a. sú að miðlarar telja að boðaðar aðgerðir, bandarískra stjórnvalda til bjargar fjármálastofnunum muni leiða til aukinna umsvifa í hagkerfinu og þar með aukinnar eftirspurnar eftir olíu. Einnig höfðu lækkandi gengi bandaríkjadals og tæknilegar ástæður á markaði áhrif.
Verð á hráolíu með afhendingu í október hækkaði um 16% og endaði í 120,92 dölum tunnan. Í Lundúnum hækkaði Brent Norðursjávarolía um 6,43 dali tunnan og endaði í 106,04 dölum.
Hækkunin í New York er m.a. rakin til þess að í kvöld voru síðustu forvöð að bjóða í olíu sem afhent verður í október. Olía, sem afhent verður í nóvember hækkaði mun minna eða um 6,62 dali og var verðið 109,37 dalir tunnan.