Stjórn Samson eignarhaldsfélags, sem er í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að félaginu verði veitt heimild til greiðslustöðvunar. Gert er ráð fyrir að beiðnin verði tekin fyrir og afgreidd með heimild til greiðslustöðvunar í dag og aðstoðarmaður á greiðslustöðvunartíma skipaður.
Aðgerðir þessar hafa engin bein áhrif á önnur félög í eigu þeirra Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem eru aðaleigendur Samson eignarhaldsfélags ehf., segir í tilkynningu.
Samson Global Holdings S.a.r.l. er stærsti einstaki hluthafi Straums og á 34,31% af hlutafé bankans. Landsbanki Luxembourg S.A. á 21,85% og Landsbanki Íslands hf. á 5,56%. Samson eignarhaldsfélag er stærsti hluthafi Landsbankans með 41,85% hlut, Landsbanki Luxembourg S.A. á 8,07% og Landsbanki Íslands hf. á 4,64%.