Baksvið: Karlhormónin og hrun markaðanna

Hefði okkur farnast betur með konurnar í forsvari á fjármálamörkuðunum?
Hefði okkur farnast betur með konurnar í forsvari á fjármálamörkuðunum? Reuters

Gleymið undirmálslánunum - ástæðan fyrir því að traustið brast í fjármálaheiminum voru of stórir skammtar af karlhormóninu testósterón. Hefðu verið fleiri konur á gólfum verðbréfamarkaðanna þá væri ákvarðanataka og áhættusækni með miklu hófstilltari hætti.

Einhvern veginn þannig hefst grein sem birtist ekki alls fyrir löngu í The Times og þar er aðalskúrkurinn í fjármálahruninu afhjúpaður - semsé karlhormónið ógurlega og það sem meira er að niðurstaðan er studd vísindalegum rökum.

Og það er engu líkara en skilanefndir hinna þjóðnýttu íslensku stórbanka hafi frétt af þessu því að nú keppast þær við að ráða konur í forystu fyrir bankakerfi Nýja Íslands - Elín Sigfúsdóttir tekin við Landsbankanum, Birna Einarsdóttir sögð á leið í bankastjórastól Glitnis og væntanlega verið að leita dauðaleit að konu innan Kaupþings, sem kann að vera þrautum þyngra þar sem ofurvöxtur bankans bendir til að þar hafi testósterónið verið í hvað hæstum hæðum.

Það ber enginn á móti því í dag að karlmenn ríktu yfir þessum heimi markaðanna sem komið hefur okkur í allt þetta klandur. Það voru gjörðir þeirra fyrst og fremst hlóðu undir ofurgróða bankanna og það voru þeir sem stóðu uppi með úttroðna vasana af kaupaukagreiðslum sem margir telja helstu ástæðu hrunsins. Þá vaknar sú áleitna spurning hvernig þetta svið hefði horft við okkur ef konur hefðu ráðið fjármálaheiminum?

Hefðu konurnar verið uppteknari af hinum mannlegu afleiðingum markaðsaflanna heldur en næstu launaútborgun? Hefðu fjármálahverfin státað af fleiri kaffihúsum en þessum skrattans börum þar sem verðbréfaguttarnir söfnuðust saman til að grobba sig af nýjustu „dílunum“? Í sem stystu máli - hefði heimurinn sloppið við þessar ófarir ef markaðirnir hefðu ráðið yfir nægum skammti af kvenhormónum - estrógenum.

Konur fældar frá stjórnunarstöðum

The Times ræðir við Juliu Noakes, sálfræðing sem starfað hefur mikið með hátekjumönnum City, fjármálahverfis London, og hún er ekki í neinum vafa: „Gallinn við fjármálin er að þar er einstaklingshyggjan of fyrirferðamikil og of lítið af kvenlegri sýn, " segir hún. „Margar konur er fældar frá því að sækjast eftir stjórnunarstöðum vegna þess að þær vilja ekki loka á 50% persónuleika síns.“

Starfsmannastjóri í City tekur í svipaðan streng segir athyglisvert að þeim bönkum hafi vegnað best í fjármálakreppunni sem hafi veitt flestum konum framgang í stjórnunarstöður. Sá nefnir Lloyds-bankans sérstaklega í þessu samhengi en síðan hefur það gerst að sá banki er einmitt einn af þeim þremur sem breska ríkisstjórnin hefur nú einkavætt að fullu - tímabundið.

Ýmsir forsprakkar í fjármálakerfinu hafna þessu hins vegar. „Þótt konur hefðu ráðið City hefði það ekki breytt neinu og að halda öðru fram er ekkert annað en kynjafordómar. Vissulega voru gerð mistök en er verið að að halda því fram að konur hefðu bara tekið á sig sveig framhjá stórum fúlgum fjár sem sveiflað hefði verið framan í þær? Látið ekki svona!“

Hver hefur rétt fyrir sér? Spurningin tekur á tveimur umdeildum álitamálum, sem eru: Hvernig virka markaðirnir og eru karlar og konur svo ýkja ólík þegar allt kemur til alls? Jú, svarið er auðvitað að karlar og konur séu lík um margt en á þeim hefur reynst mælanlegur munur þegar kemur að því að taka áhættu. Þetta sést m.a. á því að karlar þurfa að greiða hærri bifreiðatryggingaiðgjöld en konur og munurinn hefur að auki verið staðfestur í fjölda rannsókna.

Staðreyndin er sú, segir í áðurnefndri grein, að eins og allir sem lesið hafa Darwin vita þá er munurinn að miklu leyti líffræðilegur og myndi vera þannig þótt heiminum væri meira og minna stýrt af konum. Þessi munur birtist ekki aðeins á fjármálamörkuðunum heldur í öllu því sem manneskjan tekur sér fyrir hendur.

Áleitnar rannsóknir

Rannsókn sem gerð var af háskólanum í Liverpool sýnir til dæmis að karlmenn eru líklegri en konur til að stytta sér leið yfir hættulega umferðargötu. Og rannsóknin sýndi ennfremur að karlmennirnir voru fúsari að auka áhættuna ef það voru konur í augsýn. Sem þýði samt ekki, segir í greininni, að karlmenn reikni meðvitað og úthugsað út áhættuna á móti möguleikanum á bólförum. Þarna eru aðrir þættir náttúrunnar að verki.

Tengsl áhættu og kynferðis hafa verið rannsökuð. Í einni slíkri voru karlar fengnir til að kasta upp peningi og veðja á hvort hliðin kæmi upp - talan eða skjaldarmerkið. Síðan var tilraunin endurtekin nema hvað í þetta sinn var brugðið upp erótískri ljósmynd á vegg um leið og karlarnir voru að fara að taka ákvörðun um hversu miklu þeir vildu veðja. Og viti menn. Þótt ljósmyndin væri alls ótengd viðfangsefninu fór ekki á milli mála að karlarnir hættu hærri fjárhæðum með myndina uppi. Með öðrum orðum - karlar hafa tilhneigingu á stundum til að taka ákvarðanir með einhverju öðru en heilanum ( sem á svo sem líka við konur en í öðru samhengi).

Öflin hér að baki eru um margt forvitnileg. Vitað er t.d. að stóraukning testósteróns í karlfóstri um miðbik meðgöngu gegnir veigamiklu hlutverki í að byggja upp karlkynsheilann sem er stærri og svæðaskiptari í hægra og vinstra hvel (sem gæti skýrt hvers vegna karlmenn eiga erfiðara með að fást við marga hluti í einu) heldur en hjá konum (sem eru með mun þéttara tauganet í heila sínum þótt hann sé minni).

Testósterón er þó ekki einungis byggingarstoð fyrir heilann heldur gegnir veigamiklu hlutverki í að virkja hann. Ein rannsókn fylgdist til dæmis með 17 karlkyns verðbréfamiðlurum og sýndi fram á að þegar þeir höfðu hátt hlutfall karlhormóns að morgni græddu þeir meira það sem eftir lifði dags. Færð voru rök fyrir því að ástæðan væri að hærra testósterón eykur sókn í áhættu sem er auðvitað fyrirbæri sem getur verið afar hættulegt við tilteknar aðstæður á markaði, segir í áðurnefndri grein.

Vitnað er í höfund skýrslunnar um rannsóknina, Joe Herbert, prófessor: „Allar kenningar um fjármálalegar ákvarðanatökur í kröfuhörðu umhverfi markaðsviðskipta verða hér eftir að taka tillit til þessara hormónabreytinga. Óhófleg áhættutaka getur haft voveifilegar afleiðingar," segir hann og forspárgildi þessara ummæla er eiginlega óþægilegt miðað við allt það sem við stöndum nú frammi fyrir.

Þegar allt hefur verið sagt

Hér verður ekki farið frekar út í þessa sálma. Undirrót hremminganna á fjármálamörkuðum heims er auðvitað margslungin en það verður tæpast horft framhjá undirliggjandi áhrifum karlhormónsins á öll ósköpin. Þess vegna er kannski við hæfi að slá botninn í þetta með ljóðbroti Ingibjargar Haraldsdóttur sem hefur víst gengið milli kvenna undanfarið og birtist hér eins og það barst í Blackberry farsíma höfundar, en Blackberry hefur verið eitthvert helsta vinnutæki útrásarvíkinga sem og verðbréfakalla á Wall Street og stundum uppnefnt Bankberry. Það hljómar svo:

Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál
heimsins eru
vegin, metin og
útkljáð
þegar augu hafa
mæst
og hendur verið
þrýstar
í alvöru
augnabliksins
- kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og
opna gluggana
til að hleypa
vindlareyknum út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka