Samtök fólks sem átti innistæður á reikningum íslenskra banka á eynni Guernsey eru ósátt við bresk stjórnvöld, líkt og íbúar á eynni Mön. Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hefur lofað því að tryggja innistæður á Bretlandi, en Guernseybúar vilja njóta sömu tryggingar.
Í bréfi, sem Guernseybúinn Daniel Herzberg sendi blaðinu The Times, segir hann að sér líði eins og að Landsbankinn hafi svikið sig. Hann hafi verið fullvissaður um að innistæður hans væru öruggar.
Sparnaðurinn fuðrar upp
Mark Stubbs, sem býr í Bangkok, segir að langflestir innistæðueigenda hjá Kaupþingsútibúinu á Eynni Mön séu breskir ríkisborgarar sem búi erlendis. „Ég var ekki með reikninginn á Mön til að forðast skattgreiðslur, heldur vegna þess að samkvæmt breskum lögum má ég ekki eiga breska reikninga nema ég búi í Bretlandi.“
Nú standi hann frammi fyrir því að bresk stjórnvöl muni taka af honum 20 ára sparnað. Hann hafi talið sig varkáran fjárfesti, sem leggði fyrir fé hjá virtri bankastofnun. Sparnaðurinn hafi hins vegar fuðrað upp þegar breska ríkið notaði hryðjuverkalög á Kaupþing.