„Fjármálaráðuneytið hefur ekkert með málefni bankanna að gera, það er ekki bankamálaráðuneyti,“ segir Baldur Guðlaugsson, aðspurður hvers vegna hann hafi ekki upplýst Árna Mathiesen fjármálaráðherra um hlutabréfaeign sína í Landsbankanum.
Spurður hvort efni fundarins hefði haft áhrif á verðmyndun bréfa bankans ef almenningur hefði haft vitneskju um fundinn, þar sem Icesave-reikningarnir gegndu jafnstóru hlutverki í fjármögnun Landsbankans og raun ber vitni, segir Baldur svo ekki vera. „Fundurinn snerist ekki um Icesave, heldur þennan ákveðna hlut, flutning reikninganna. Það höfðu þá þegar verið umræður í breska þinginu um stöðu innlánsreikninga erlendra banka á þeim tíma.“
Þegar Baldri er bent á að um miðjan september hefðu birst fréttir um að breskir sparifjáreigendur treystu þeim íslensku betur og bankastjórar Landsbankans fullyrt að innlánsreikningarnir gegndu lykilhlutverki í fjármögnun Landsbankans, segir Baldur að útstreymi af reikningum hafi „komið og farið“. Hann segir það jafnframt hafa legið fyrir að útstreymi af Icesave-reikningunum hafi hafist fyrir 2. september.
„Um svipað leyti og ég seldi bréfin, sem var 17. september, komu fram upplýsingar um að Icesave-deilan væri að leysast,“ segir Baldur. Hann vill hins vegar ekki gefa upp hvaða upplýsingar það séu.