NBI og Landsvaki viðurkenna mistök

Fjármálaeftirlitið rannsakar nú ýmis atriði varðandi peningamarkaðssjóði allra viðskiptabankanna.
Fjármálaeftirlitið rannsakar nú ýmis atriði varðandi peningamarkaðssjóði allra viðskiptabankanna. mbl.is/Golli

NBI hf. og Landsvaki hf. hafa viðurkennt að mistök hafi verið gerð þegar fjárfesting í peningamarkaðssjóði Landsbankans var í einhverjum tilvika kynnt sem áhættulaus. Þá hafa viðskiptamenn verið beðnir afsökunar. Gögn í málinu hafa verið send fjármálaeftirlitinu vegna þessa, segir í yfirlýsingu frá viðskiptaráðuneytinu.

Fram kemur í yfirlýsingunni að hópur hlutdeildarskírteinishafa í peningamarkaðssjóði Landsbanka Íslands (Peningabréf Landsbankans ISK) hafi gert ráðuneytinu grein fyrir ásökunum fjölmargra einstaklinga um að markaðssetning á peningamarkaðssjóði Landsbankans hafi verið villandi og á köflum beinlínis röng.

„Í ofanálag eru uppi ásakanir um að óeðlilega stórum hluta fjármuna sjóðsins hafi verið fjárfest í félögum tengdum eigendum Landsbankans. Ennfremur eru uppi ásakanir um að í fyrstu viku októbermánaðar þessa árs, hafi hlutdeildarskírteinishöfum verið ráðið frá því að taka út fé sitt úr peningamarkaðssjóði þó einstökum viðskiptavinum hafi verið ráðlagt að flytja fé sitt í öruggara sparnaðarform.

Óumdeilt er að í tilteknum tilvikum hafi fjárfesting í peningamarkaðssjóði Landsbankans verið kynnt sem áhættulaus. NBI hf. og Landsvaki hf. hafa viðurkennt  að um mistök hafi verið að ræða og beðið viðskiptamenn afsökunar á þessu. Gögn í málinu hafa verið send fjármálaeftirlitinu vegna þessa.

Af þessu tilefni hefur viðskiptaráðherra sent fyrirspurn til fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt upplýsingum viðskiptaráðuneytisins er Fjármálaeftirlitið (FME) þessa stundina að rannsaka ýmis atriði varðandi peningamarkaðssjóðina allra viðskiptabankanna, þ.á.m. fjárfestingar þeirra og markaðssetningu. Rannsókn er ekki lokið en FME leggur mikið kapp á að ljúka henni sem allra fyrst á nýju ári. Sé ástæða til mun FME vísa málinu til lögreglu, sbr. 112 gr.d. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Vegna eðlis og umfangs málsins er viðbúið að væntanleg rannsóknarnefnd á vegum Alþingis taki málefni peningamarkaðssjóða til sérstakrar skoðunar.

Líklegt er að einhverjir kjósi að skjóta ágreiningi til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki eða að höfða mál gegn rekstrarfélagi peningamarkaðssjóðsins.  Til að tryggja eðlilega málsmeðferð er afar mikilvægt að engum mikilvægum upplýsingum er varða rekstur sjóðsins og ráðstöfun fjármuna hans sé haldið frá hlutaðeigandi. Viðskiptaráðherra telur mjög brýnt að samsetning peningamarkaðssjóðs Landsbankans verði gerð opinber. Með því verði unnt að draga úr tortryggni milli málsaðila og stuðla að sanngjarnri niðurstöðu málsins,“ segir í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK