Staðan hér á landi fyrir bankahrunið í byrjun októbermánaðar á síðasta ári var á vissum sviðum svipuð og á Írlandi. Þó verður að segjast að hún hafi verið nokkuð uggvænlegri hér, enda hefur komið á daginn að Írar hafa ekki komið eins illa út úr þeim hremmingum sem riðið hafa yfir og Íslendingar, þó vandi þeirra sé vissulega einnig mikill. Stærstur hluti fjármálakerfisins á Írlandi er þó ekki hruninn. Ætla má að sú staðreynd að Írar höfðu seðlabanka Evrópu sem bakhjarl hafi breytt miklu fyrir þá.
Í desembermánuði síðastliðnum kynntu írsk stjórnvöld svo að þau myndu verja allt að 10 milljörðum evra í neyðaraðstoð við innlendu bankana, sem innspýtingu á eigin fé.
Þessar aðgerðir írskra stjórnvalda dugðu ekki til þess að forða einum af stóru írsku bönkunum frá falli. Í síðasta mánuði var þriðji stærsti banki Írlands, Anglo Irish bankinn, þjóðnýttur. Var talið að nýtt eigið fé frá stjórnvöldum upp á 1,5 milljarða evra myndi ekki duga til að endurvekja traust á bankanum, en það hafði dvínað mjög vegna spillingar og óstjórnar ýmiss konar í starfsemi bankans.
Skuldatryggingarálag á írska ríkið er með því hæsta á evrusvæðinu og hefur hækkað mikið að undanförnu. Það hefur aukið á vandann í landinu. Mikill þrýstingur er á írsku ríkisstjórnina að grípa til harðra aðgerða til að taka á miklum halla í ríkisfjármálum og hefur ýmislegt komið þar til skoðunar og reyndar framkvæmda einnig. Að sögn írskra vefmiðla óttast ýmsir að verði ekki snúið af þeirri braut sem efnahagslífið er á sé hætta á því að lánshæfismatsfyrirtækin lækki lánshæfiseinkunnir ríkisins, sem myndi auka vandann enn frekar og gera lántökur enn dýrari en þær eru.
Írsk stjórnvöld eru því enn að kljást við mikinn vanda en fjármálakerfið í landinu er engu að síður fullu starfhæft og hefur verið það allar götur frá því fjármálakreppan hófst.