Ríkið tekur Straum yfir

William Fall, forstjóri Straums Burðaráss og Björgólfur Thor Björgólfsson stjórnarformaður.
William Fall, forstjóri Straums Burðaráss og Björgólfur Thor Björgólfsson stjórnarformaður. mbl.is/Kristinn

Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir Straum-Burðarás fjárfestingabanka og vikið félagsstjórn í heild sinni frá störfum, ásamt því að skipa bankanum skilanefnd sem tekur við öllum heimildum stjórnar félagsins frá og með deginum í dag. Vegna þessa er bankinn lokaður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Í framhaldi af þessu hefur William Fall forstjóri Straums ákveðið að segja af sér sem forstjóri Straums og tekur uppsögn hans gildi nú þegar.

Ljóst er að það verður lokað fyrir viðskipti með hlutabréf Straums í Kauphöll Íslands í dag.

Seðlabankinn upplýsti um þrönga lausafjárstöðu Straums

Í bréfi sem Fjármálaeftirlitið sendi Straumi-Burðarási þann 8. mars var óskað eftir upplýsingum um lausafjárstöðu bankans með tilliti til þeirra skuldbindinga sem bankinn þarf að standa við á næstu dögum. Seðlabanki Íslands hafði upplýst FME um þrönga lausafjárstöðu Straums og var bréfið sent af því tilefni.

Áttu að greiða 33 milljónir evra en áttu einungis 15,3 milljónir evra

Í svarbréfi Straums kom fram að bankinn þyrfti að standa skil á skuldbindingum að fjárhæð 33 milljónir evra í dag, jafnvirði rúmlega 4,7 milljarða króna, en hefði aðeins handbært fé að fjárhæð 15,3 milljónir evra, jafnvirði 2,2 milljarða króna. Jafnframt kemur fram í bréfinu að það sé mat Straums að það sé ekki raunhæfur kostur að afla þess fjár sem nauðsynlegt er til að tryggja áframhaldandi starfsemi og að ákveðið hafi verið að óska eftir heimild til greiðslustöðvunar nú í morgun.

„Þrátt fyrir sterkt eiginfjárhlutfall og það að bankanum hafi tekist að semja við lánadrottna sína um framlengingu lána, er fyrirséð að vegna bágrar lausafjárstöðu getur Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. (Straumur) ekki haldið áfram reglulegri starfsemi.

Fjármálaeftirlitið hefur þess vegna tekið ákvörðun um að taka yfir vald hluthafafundar Straums og vikið félagsstjórn í heild sinni frá störfum, ásamt því að skipa bankanum skilanefnd sem tekur við öllum heimildum stjórnar félagsins frá og með deginum í dag.
Skilanefndin skal fara með öll málefni Straums, hafa umsjón með allri meðferð eigna bankans og annast rekstur hans.

Vegna þessa er bankinn lokaður.

Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands frá 6. október 2008 eru innistæður í íslenskum viðskiptabönkum tryggðar að fullu. Straumur hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki og er aðili að Tryggingarsjóði innistæðueigenda og fjárfesta,"  segir í tilkynningu.

Tap Straums á síðasta ári nam 699,3 milljónum evra en samkvæmt hluthafalista frá 1. mars sl er Samson Global Holding stærsti hluthafinn með 34,31% hlut. Helstu eigendur Samson Global Holding eru feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson en samkvæmt heimildum mbl.is er félagið að mestu í eigu Björgólfs Thors.

Fjármálaeftirlitið hefur skipað skilanefnd Straums og er Reynir Vignir, löggiltur endurskoðandi, formaður nefndarinnar. Auk Reynis eru Kristinn Freyr Kristinsson, löggiltur endurskoðandi, Arna Guðrún Tryggvadóttir, löggiltur endurskoðandi, Elín Árnadóttir, lögfræðingur og Ragnar Þórður Jónasson, lögfræðingur  í skilanefndinni.

Ákvörðun FME vegna Straums í heild

Hluthafalisti Straums frá 1. mars

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka