Madoff í 150 ára fangelsi

Bandaríski kaupsýslumaðurinn Bernard Madoff var í dag dæmdur í 150 ára fangelsi í einhverju mesta fjársvikamáli, sem upp hefur komið þar í landi. 

Dómurinn var kveðinn upp í réttarsal á Manhattan í New York en Madoff var fundinn sekur í mars. Um er að ræða hámarksrefsingu fyrir fjársvik.

Fulltrúar viðskiptavina Madoffs, sem margir hverjir töpuðu stórfé, fengu að ávarpa réttinn. Þá ávarpaði Madoff einnig réttinn og bað þá, sem orðið hefðu fyrir fjárhagstjóni, afsökunar. Sagðist hann myndu búa við þann sársauka, sem hann hefði valdið, til æviloka.

„Ég læt fjölskyldu minni eftir arfleifð skammar. Ég ber ábyrgur fyrir miklum þjáningum og skömm. Ég bý við þjáningar," sagði Madoff.

„Ég bið fórnarlömb mín afsökunar. Mér þykir þetta leitt," sagði hann.

Í síðustu viku úrskurðaði dómari í New York að eignir sem nema 170 milljörðum dala, jafnvirði nærri 22 þúsund milljarða króna, skuli gerðar upptækar en það er sú upphæð sem talin er hafa runnið gegnum fjárfestingarfélag Madoffs. Ekki nema brot af þeirri upphæð, eða um 1 milljarður dala, hefur endurheimts með sölu á eignum Madoffs. 

Þá samþykkti Ruth, eiginkona Madoffs, að láta af hendi um 80 milljóna dala eigna en heldur eftir um 2,5 milljónum dala í reiðufé. 

Madoff, sem á sínum tíma var stjórnarformaður Nasdaq verðbréfamarkaðarins, blekkti fjárfesta til að afhenda honum milljarða dala til ávöxtunar. Hann notaði hins vegar féð til að greiða öðrum fjárfestum  „vexti". Talið er að fjársvikin nemi 61 milljarði dala.  
Bernard Madoff.
Bernard Madoff. Reuters
Einn af viðskiptavinum Madoffs kemur til dómhússins á Manhattan í …
Einn af viðskiptavinum Madoffs kemur til dómhússins á Manhattan í New York í dag. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK