Gengi evrunnar 145 krónur hjá Microsoft

MARK BLINCH


Viðskipti Microsoft við íslensk fyrirtæki, stofnanir og almenning munu verða gerð á evrugenginu 145 krónum fram til 31. mars. Sérstakt Microsoft-gengi hefur verið notað hér á landi í rúmt ár en það var innleitt í byrjun desember 2008 til að bregðast við algjöru frosti á hugbúnaðarmarkaðnum í kjölfar bankahrunsins og falls krónunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi.

„Það er Microsoft Íslandi sem hefur samið við höfuðstöðvar Microsoft um notkun sérstaks gengis í viðskiptum hér á landi. Grunnhugsunin hefur frá upphafi verið að með þessu sé Microsoft að standa með viðskiptavinum sínum á tímabundnu erfiðleikaskeiði.

Væntingar Microsoft um að afar lágt gengi krónunnar sé einungis tímabundið hafa hins vegar ekki gengið eftir. Því hefur evrugengi krónunnar í viðskiptum með Microsoft-hugbúnað gefið nokkuð eftir. Fyrstu sjö mánuðina var það 120, á síðari helmingi ársins 2009 var það 130 og verður 145 krónur fram til 31. mars," að því er segir í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi.

„Það er ekkert launungarmál að samningaviðræðurnar um áframhald Microsoft-gengisins voru erfiðari nú heldur en áður. Viðsemjendum okkar þykir sem stöðugleiki hafi náðst í gengi íslensku krónunnar í kringum evrugengið 180 og við þurfum að sýna þeim fram á að það sé í skjóli óeðlilegra aðstæðna og gengishafta og að óvissuþættir séu margir. Niðurstaðan varð að miða við gengið 145 sem léttir undir með íslensku efnahagslífi og þýðir áframhaldandi gjaldeyrissparnað í hugbúnaðarviðskiptum hér á landi. Um leið sýnir þetta að Microsoft hefur trú á því að ástandið muni batna á komandi mánuðum þótt við höfum vissulega orðið fyrir vonbrigðum með það hversu hægt hefur gengið,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í fréttatilkynningu.

Þar kemur fram að gróflega áætlað megi segja að Microsoft-gengið hafi sparað íslensku efnahagslífi ríflega 1,5 milljarð króna í gjaldeyri frá því að það var tekið upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK