„Lítið skref í rétta átt"

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það algjört grundvallaratriði að gjaldeyrishöftin verði afnumin. Fyrr hækki ekki gengi krónunnar en það væri mun hærra í dag ef höftin hefðu aldrei verið sett. Hann segir vaxtalækkunina nú lítið skref í rétta átt.

„En hvergi nærri nóg til að koma vaxtastiginu þannig fyrir að fyrirtæki fari að fjárfesta. Ég vek líka athygli á því að þar sem bankar eru að endurskoða vaxtaálag á fyrirtæki þá er vextir að hækka. Þannig að fjármagnskostnaður fyrirtækja er að hækka. Þannig að það þarf verulegar vaxtalækkanir frá Seðlabankanum til þess að vega á móti þessu," segir Vilhjálmur.

Hann segist ekki sjá nein einustu rök fyrir því að vaxtamunur á milli Íslands og evrusvæðisins sé yfir 3%. Öll verðbólga sem við búum við í dag stafar af lágu gengi, segir Vilhjálmur og segir skattahækkanir draga úr einkaneyslu. 

Vilhjálmur segir að gengi krónunnar verði lágt eins og það er núna svo lengi sem gjaldeyrishöftin eru við lýði. Hann segir að það muni ekki gerast að gengið muni hækka og verða eðlilegt bara upp úr þurru.

Aðspurður um þau ummæli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra um þá skoðun sína að það ætti að skoða það gaumgæfilega að taka myndarleg skref varðandi afnám gjaldeyrishafta frekar en stærri skref varðandi lækkun vaxta, segir Vilhjálmur að hann sjái ekki hvernig annað útiloki hitt. Hins vegar verði ekki eðlilegur gjaldeyrismarkaður hér á landi fyrr en gjaldeyrishöftin verði afnumin. Þá fyrst geti gengi krónunnar hækkað í eitthvað eðlilegt horf og eðlilegt flæði gjaldeyris inn og út úr landinu.

Vilhjálmur segir að hann telji að setning gjaldeyrishaftanna í upphafi verið mistök og ef þau hefðu ekki verið sett þá væri gengi krónunnar hærra en það er í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka