Orkuveita Reykjavíkur og japanska fyrirtækið Mitsubishi gengu í dag frá samkomulagi um samstarf um uppbyggingu á jarðvarmavirkjunum í Afríku, Rómönsku Ameríku og Asíu.
Mitsubishi framleiðir túrbínur í jarðvarmavirkjanir og segir í frétt AFP að fyrirtækin tvö vonist til þess að samstarfið skili verkefnum í þróunarríkjum. Þau hafa einnig gert með sér samkomulag um framleiðslu á vistvænu eldsneyti, að sög Ichiro Fukue, aðstoðarforstjóra Mitsubishi Heavy Industries.
Fréttatilkynning sem OR sendi frá sér klukkan 10:32
Fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Mitsubishi Heavy Industries (MHI) undirrituðu í dag í sendiráði Íslands í Tókýó viljayfirlýsingu um samstarf fyrirtækjanna tveggja við jarðhitanýtingu á heimsvísu og innleiðingu visthæfra orkugjafa í samgöngum hér á landi. Þeir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður OR, Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri, og Ichiro Fukue, aðstoðarforstjóri MHI, undirrituðu yfirlýsinguna.
„Samstarf OR og MHI á sér tveggja áratuga sögu, til þess að Japanirnir tóku að sér smíði aflvéla Nesjavallavirkjunar. MHI varð einnig hlutskarpast í útboði á smíðum véla fyrir Hellisheiðarvirkjun og á síðustu misserum hefur samstarfið einnig þróast yfir á svið visthæfra samgangna. Hafa fulltrúar MHI m.a. komið hingað til lands til að kynna hugmyndir fyrirtækisins um rafbílavæðingu og framleiðslu gervieldsneytisins DME með jarðhita. Þá á Mitsubishi í formlegu samstarfi við iðnaðarráðuneytið um visthæfar samgöngur," segir í tilkynningunni frá OR.