Rök fyrir frekari vaxtalækkun

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Seðlabanki Íslands ger­ir ráð fyr­ir því að verðbólga, án áhrifa neyslu­skatta, við mark­mið bank­ans í lok árs og kom­in nokkuð und­ir það snemma á næsta ári. Verðbólgu­mark­mið bank­ans eru 2%. Verðbólgu­vænt­ing­ar hafa einnig lækkað veru­lega að und­an­förnu. Vext­ir lækkuðu um 1% í dag.

Minni verðbólga, lægri verðbólgu­vænt­ing­ar, sterk­ara gengi krón­unn­ar og horf­ur á hraðari hjöðnun verðbólgu en áður var reiknað með gefa færi á meiri vaxta­lækk­un en að jafnaði und­an­farið ár, að því er seg­ir í Pen­inga­mál­um Seðlabank­ans sem komu út í dag.

Á móti kem­ur að ekki er enn ljóst í hve mikl­um mæli ný­leg verðbólgu­hjöðnun end­ur­spegl­ar skamm­tímaþætti. Þá verður að hafa í huga að þegar að því kem­ur að losa um gjald­eyr­is­höft verður áhættu­veg­inn vaxtamun­ur á milli Íslands og út­landa að styðja nægi­lega við krón­una. Hins veg­ar er enn nokk­ur óvissa um hvenær hægt verður að byrja að leysa höft­in. Því er erfitt að full­yrða hvað fyr­ir­huguð los­un hafta fel­ur í sér fyr­ir vaxta­stefn­una næstu mánuði.

„Hjaðnandi verðbólga og verðbólgu­vænt­ing­ar hafa leitt til þess að raun­vext­ir Seðlabank­ans hafa hækkað frá síðustu vaxta­ákvörðun. Þótt efna­hags­bati virðist haf­inn er hann enn sem komið er veik­ur og horf­ur eru á að slaki verði til staðar í þjóðarbú­skapn­um á næstu árum."

Viðskipta­vegið meðal­gengi krón­unn­ar hef­ur styrkst um rúm­lega 2½% frá síðasta fundi nefnd­ar­inn­ar í júní og um rúm­lega 2% gagn­vart evru, án viðskipta Seðlabank­ans á gjald­eyr­is­markaði. Á sama tíma hef­ur vaxta­álag á skuld­bind­ing­ar rík­is­sjóðs lítið breyst.

Gjald­eyr­is­höft­in, þróun viðskipta­jafnaðar og -kjara, ásamt vaxtamun við helstu viðskipta­lönd Íslands halda áfram að styðja við gengi krón­unn­ar. Gengi henn­ar á af­l­ands­markaði hef­ur einnig styrkst, án þess að það megi rekja til auk­inn­ar sniðgöngu gjald­eyr­is­hafta. 

Horf­ur eru á að verðbólg­an hjaðni held­ur hraðar á þessu ári en gert var ráð fyr­ir í síðustu Pen­inga­mál­um. Kem­ur þar m.a. til tölu­vert sterk­ara gengi og minni verðbólgu­vænt­ing­ar. Einnig höfðu sumar­út­söl­ur meiri áhrif til lækk­un­ar verðlags en á und­an­förn­um árum og óvíst hvort áhrif­in gangi að fullu til baka nú þegar nýj­ar vör­ur eru keypt­ar inn á hag­stæðara gengi.

Spáð er að verðbólga verði við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans á öðrum fjórðungi næsta árs en að verðbólga án áhrifa breyt­inga óbeinna skatta verði við mark­mið í lok þessa árs sem er held­ur fyrr en spáð var í maí.

Meðaltal verðbólgu 5,7% í ár

Meðal­verðbólga á ár­inu 2010 verður 5,7% ef þessi spá geng­ur eft­ir, sam­an­borið við 12% meðal­verðbólgu á síðasta ári. Þetta er um hálfri pró­sentu minni verðbólga en gert var ráð fyr­ir í maí.

Nokk­ur óvissa er um skamm­tíma­verðbólgu­horf­ur, ekki síst vegna mik­illa hækk­ana und­an­farið á heims­markaðsverði olíu- og hrávöru, einkum verði á hveiti. Útlit er fyr­ir að mat­væla­verð hækki tals­vert á kom­andi mánuðum. Tölu­verð óvissa er um hversu mik­il verðlags­áhrif­in verða og hversu hratt þau koma fram.

Á móti kem­ur að gengi krón­unn­ar gæti hækkað meira en gert er ráð fyr­ir í spánni.

Pen­inga­mál Seðlabanka Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK