Sigurplast óskar eftir gjaldþrotaskiptum

Stjórn iðnfyr­ir­tæk­is­ins Sig­urplasts ehf. í Mos­fells­bæ óskaði í dag eft­ir því við héraðsdóm að fyr­ir­tækið verði tekið til gjaldþrota­skipta. Seg­ir í til­kynn­ingu, að viðskipta­banki Sig­urplasts hafi skorað á fé­lagið að lýsa því yfir að það geti greitt bank­an­um 1,1 millj­arð króna vegna láns sem upp­haf­lega var 334 millj­ón­ir króna. Slíkt sé úti­lokað.

Sig­urplast er 50 ára gam­alt iðnfyr­ir­tæki og fram­leiðir meðal ann­ars plast­umbúðir. Hjá fyr­ir­tæk­inu hafa starfað 17 manns. Tryggvi Agn­ars­son, lögmaður, hef­ur að und­an­förnu fjallað um mál fyr­ir­tæk­is­ins í fjöl­miðlum án þess að nefna nafn þess. Hann sagði m.a. í frétt­um Rík­is­út­varps­ins 6. sept­em­ber, að Ari­on banki beitti bola­brögðum til að kom­ast yfir rekst­ur fyr­ir­ækja sem séu líf­væn­leg.

Starfs­fólki fyr­ir­tæk­is­ins var sagt frá ósk Sig­urplasts um gjaldþrota­skipti í há­deg­inu í dag og að því loknu var slökkt á öll­um vél­um, síðustu send­ing­ar til viðskipta­vina af­greidd­ar og fólkið fór heim.

Í til­kynn­ingu frá Sig­urplasti seg­ir, að það ráði ekki við af­borg­an­ir af stökk­breytt­um ólög­leg­um geng­is­bundn­um lán­um. Niðurstaða Hæsta­rétt­ar um vexti af þess­um lán­um og yf­ir­lýs­ing viðskiptaráðherra í kjöl­farið um að vænt­an­leg laga­setn­ing muni ekki ná til fyr­ir­tækja sé kornið sem fyllti mæl­inn. Þetta þýði að greiðslu­byrði lán­anna myndi að minnsta kosti tvö­fald­ast.

Í ljósi þessa séu ekki leng­ur for­send­ur til að reka Sig­urplast, þrátt fyr­ir að fé­lagið hafi stór­aukið veltu sína á síðastliðnum fjór­um árum, sé vel rekstr­ar­hæft og hafi skilað hagnaði frá rekstri öll árin frá því lán­in voru tek­in.

Seg­ir í til­kynn­ing­unni, að eig­end­ur Sig­urplasts hafi frá hruni reynt að ná sam­komu­lagi við viðskipta­banka sinn um áfram­hald­andi rekst­ur en án ár­ang­urs. Hafi for­svars­menn fé­lags­ins boðið bank­an­um að standa við upp­haf­leg­an höfuðstól lána reiknað í ís­lensk­um krón­um.  Nú sé ljóst að eig­end­ur og bank­inn tapi mikl­um verðmæt­um. Ekki þurfi að fjöl­yrða um áhrif­in á starfs­fólk fyr­ir­tæk­is­ins, sem hafi margt hvert starfað hjá því ára­tug­um sam­an.
 
Þá vilja for­ráðamenn Sig­urplasts taka fram, að fé­lagið sé í full­um skil­um með op­in­ber gjöld, laun og launa­tengd gjöld. Aðrar skuld­ir en við lána­stofn­an­ir séu óveru­leg­ar.


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka