Íslensku markaðsverðlaunin voru afhent í dag en markaðsmenn ársins eru þeir Simmi & Jói (Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson).Markaðsfyrirtæki ársins er hins vegar Borgarleikhúsið að mati dómnefndar Ímark.
Það var samdóma álit dómnefndar að þeir Simmi & Jói væru öðrum Íslendingum í kreppu góð fyrirmynd. „Stundum þarf að standa upp og framkvæma hlutina, hrinda því óhugsandi í framkvæmd og láta ekki úrtölufólk standa í veginum. Á 6 mánuðum hafa þeir klárlega náð að gera Hamborgarafabrikkuna einn vinsælasta veitingastað landsins og svo til skuldlausan," segir í tilkynningu.
Markaðsfyrirtæki ársins var valið Borgarleikhúsið. Heildræn markaðsstefna Borgarleikhússins hefur gert fyrirtækinu kleift að ná sterkri fótfestu á markaðinum á mjög stuttum tíma. Borgarleikhúsið hefur verið stefnufast í markaðssókn sinni frá haustinu 2008. Þá var lögð skýr stefna og henni hefur verið fylgt eftir með tiltölulega litlum breytingum. Með nýju merki, nýrri stefnumótun og nýjum nálgunum er leikhúsið orðið sýnilegasta leikhús landsins, samkvæmt tilkynningu frá Ímark.
Önnur tilnefnd fyrirtæki fyrir verðlaunin Markaðsfyrirtæki ársins voru Icelandair og Vínbúðin.