Fleiri fasteignir seldar en á mun lægra verði

Veltan á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu minnkar verulega
Veltan á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu minnkar verulega mbl.is/Ómar Óskarsson

Alls var 281 fasteign þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í nóvember. Heildarvelta nam 7,4 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 26,4 milljónir króna. Fækkar kaupsamningum um 5% á milli mánaða en fjölgar um 35% á milli ára. Á milli ára minnkar veltan um 23%.

Veltan tæplega 19 milljörðum króna minni en í nóvember 2007

Ef horft er lengra aftur sést að í nóvember 2008 voru seldar 159 fasteignir á höfuðborgarsvæðinu og var veltan 4.709 milljónir króna. Aftur á móti voru seldar 768 fasteignir í nóvember 2007 og var veltan 26.236 milljónir króna. Munar því tæplega nítján milljörðum krónum á veltunni á fasteignamarkaði í nóvember 2007 á höfuðborgarsvæðinu og nú. 

Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 4,8 milljörðum í nóvember, viðskipti með eignir í sérbýli 2,3 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 300 milljónum króna.

Þegar nóvember 2010 er borinn saman við október 2010 fækkar kaupsamningum um 5% og velta minnkar um 6%. Í október 2010 var þinglýst 296 kaupsamningum, velta nam 7,9 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 26,7 milljónir króna.

Mjög hefur dregið úr makaskiptasamningum

Þegar nóvember 2010 er borinn saman við nóvember 2009 fjölgar kaupsamningum um 35% og velta minnkar um 23%. Í nóvember 2009 var þinglýst 207 kaupsamningum, velta nam 9,8 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 47,1 milljón króna, segir á vef Þjóðskrár.

Makaskiptasamningar voru 25 í nóvember 2010 eða 9,3% af öllum samningum. Í október 2010 voru makaskiptasamningar 36 eða 12,7% af öllum samningum. Í nóvember 2009 voru makaskiptasamningar 56 eða 29,3% af öllum samningum. Makaskiptasamningur er þegar hluti kaupverðs er greitt með annarri fasteign. Upplýsingar um makaskiptasamninga eiga eingöngu við um íbúðarhúsnæði.

31 fasteign seld á Akureyri og 20 í Reykjanesbæ

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir á Akureyri í nóvember 2010 var 31. Þar af voru 19 samningar um eignir í fjölbýli, 11 samningar um eignir í sérbýli og 1 samningur um annars konar eign. Heildarveltan var 646 milljónir króna og meðalupphæð á samning 20,8 milljónir króna.

Á sama tíma var 12 samningum þinglýst á Árborgarsvæðinu. Þar af var 1 samningur um eign í fjölbýli, 10 samningar um eignir í sérbýli og 1 samningur um annars konar eign. Heildarveltan var 287 milljónir króna og meðalupphæð á samning 23,9 milljónir króna.

Á sama tíma var 7 samningum þinglýst á Akranesi. Þar af voru 5 samningar um eignir í fjölbýli, 1 samningur um eign í sérbýli og 1 samningur um annars konar eign. Heildarveltan var 268 milljónir króna og meðalupphæð á samning 38,3 milljónir króna.

Á sama tíma var 20 samningum þinglýst í Reykjanesbæ. Þar af voru 14 samningar um eignir í fjölbýli, 4 samningar um eignir í sérbýli og 2 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 689 milljónir króna og meðalupphæð á samning 34,4 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK