Fæðuklasi til eflingar og verðmætasköpunar

mbl.is/Sigurður Bogi

Íslenski fæðiklasinn verður settur á laggirnar í dag með formlegri athöfn í Grósku hugmyndahúsi. Undirbúningur að stofnun klasans hefur staðið frá því síðasta haust og svipar honum að hluta til Íslenska sjávarklasans sem hefur verið starfandi í nokkur ár.

Ingibjörg Davíðsdóttir er stofnandi fæðuklasans en hún er í leyfi frá störfum sendiherra í utanríkisþjónustunni.

Ingibjörg segist í samtali við Morgunblaðið lengi hafa haft brennandi áhuga á eflingu byggðar í landinu, ekki síst með aukinni verðmætasköpun í landbúnaði og fæðutengdri starfsemi. Hún vilji leggja af mörkum með því stoðkerfi sem Fæðuklasinn verður.

Sterkt byggðasjónarmið

Íslenski fæðuklasinn mun að sögn Ingibjargar taka til allrar virðiskeðjunnar í landbúnaði og fæðutengdri starfsemi; ræktun, framleiðslu og vinnslu sem og sölu og neyslu. Hún segir að einhver skörun muni óhjákvæmilega eiga sér stað við önnur verkefni og stofnanir en undirstrikar að þetta snúist um samvinnu á milli atvinnugreina. Þá bendir hún á að starfsemi klasans sé ekki einskorðuð við landbúnað- og fæðutengda starfsemi heldur komi einnig við sögu meðal annars menning, listir, hönnun, arkitektúr og afþreying.

Hún kveðst sjá margvísleg tækifæri sem henni finnst sumpart vannýtt og segir klasann vera stoðkerfi eða tæki til að grípa alla möguleika sem eru til verðmætasköpunar, ekki síst á landsbyggðinni. „Þannig að það er sterkt byggðasjónarmið í uppsetningunni.“ 

Ingibjörg leggur áherslu á að Íslenski fæðuklasinn sé settur upp á viðskiptalegum forsendum þar sem sköpun verðmæta er í fyrirrúmi. „Þetta snýst í aðalatriðum um að þróa allar þessar frábæru hugmyndir sem eru úti um allt og koma þeim í sprota,“ bætir hún við.

Byr gefinn í seglin

Við undirbúning klasans hefur verið tekið tillit til reynslu annarra af stofnun og rekstri klasa, bæði innanlands og utan. Víðtækt samráð hefur verið haft við frumkvöðla, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög, bændur og býli, aðra klasa, miðstöðvar og þyrpingar, mennta- og vísindastofnanir, einstaklinga og fleiri. 

Fyrsti fundur fimm manna stjórnar klasans verður haldinn í dag, 25. júní, en í stjórn hans sitja fulltrúar frá fyrirtækjum, fjárfestum, háskóla- og vísindasamfélagi og stjórnarráði, en sjálf veitir Ingibjörg stjórninni formennsku. Að loknum stjórnarfundi verður áfanganum fagnað með huggulegri samveru í Grósku þar sem glösum verður lyft og byr gefinn í seglin. Hafa nokkrir ráðherrar úr ríkisstjórn boðað komu sína ásamt fyrrverandi forseta Íslands. Athöfnin í Grósku hefst kl. 15.

Ingibjörg segist lengi hafa haft brennandi áhuga á eflingu byggðar …
Ingibjörg segist lengi hafa haft brennandi áhuga á eflingu byggðar í landinu, ekki síst með aukinni verðmætasköpun í landbúnaði og fæðutengdri starfsemi. Ljósmynd/Myriam Marti Photography

Á fulla ferð í haust

Rekstur klasans er í því formi að gerðir verða bakhjarla- og samstarfssamningar við fyrirtæki, háskólasamfélag, stofnanir og fleiri, meðal annars um fjárframlög, ráðgjöf, vinnu, stuðning og samstarf og eru samningarnir eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Reksturinn byggist á bakhjarla- og samstarfsframlögum, en búið er að ganga frá meira en 20 samningum, fleiri eru langt komnir og enn fleiri í farvatninu.  Þá verða gerðir verkefnasamningar um átaksverkefni og samningar meðal annars við sveitarfélög þar sem klasinn getur kortlagt möguleika sem fyrir hendi eru o.s.frv.

Frá haustinu stendur til að ráða framkvæmdastjóra eða verkefnastjóra til Fæðuklasans. „Þetta verður unnið skref fyrir skref. Á næsta leyti eru sumarfrí hjá landanum og svo kemur haustið og þá förum við á fulla ferð,“ segir Ingibjörg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK