Minnkandi velta í hagkerfinu milli ára

Velta í ferðaþjónustunni jókst milli áranna 2023 og 2024.
Velta í ferðaþjónustunni jókst milli áranna 2023 og 2024. mbl.is/Sigurður Bogi

Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum dróst saman um 4,6% að raunvirði í mars og apríl og um 2% í janúar og febrúar samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem birtist fyrr í dag.

Þá segir jafnframt að þróunin sé ólík eftir útflutningsgreinum. Ferðaþjónusta aukist lítillega á milli ára, velta í sjávarútvegi og álframleiðslu minnki en velta í lyfjaframleiðslu aukist til muna.

Þróunin bendir til þess að atvinnulífið hafi tekið að hægja verulega á sér sem sé í samræmi við 4% samdrátt í hagkerfinu á fyrsta ársfjórðungi.

Velta í framleiðslu lyfja 144% meiri 

Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu var 1,7% meiri að raunvirði á fyrstu fjórum mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra. Vöxtinn má að langmestu leyti rekja til aukinnar veltu í farþegaflutningum með flugi en sá liður jókst um 6,6% á föstu verðlagi.

Velta í sjávarútvegi, fiskvinnslu og fiskeldi var 16,5% minni á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra að raunvirði. Loðnubrestur skýrir samdráttinn að stærstum hluta, segir í Hagsjánni.

Hvað framleiðslu málma varðar þá dróst veltan saman um 18,7% á sama tímabili. Velta í framleiðslu lyfja var 144% meiri á fyrstu fjórðu mánuðum ársins en árið 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK