FME gerir athugasemdir við starfshætti Kviku

FME gerir margar athugasemdir við starfshætti Kviku banka.
FME gerir margar athugasemdir við starfshætti Kviku banka.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) gerir margar athugasemdir við starfshætti Kviku banka og segir að bankinn hafi brotið gegn nokkrum lagaákvæðum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

„Ekki var talið tilefni til að beita viðurlögum vegna brotanna en við matið var m.a. horft til eðlis og umfangs brotanna,“ segir í niðurstöðu athugunar á aðgerðum Kviku gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Athugasemdir voru meðal annars gerðar við áhættumat bankans, aðferðarfræði, skjölun og utanumhald gagna, færslueftirlit bankans og áreiðanleikakannanir.

Áhættumatið byggt á huglægu mati

Áhættumati bankans á starfsemi og aðferðafræði að baki því var talið að nokkru ábótavant.

„Þá tók bankinn ekki mið af umfangi áhættuþátta í áhættumatinu með fullnægjandi hætti og byggði áhættumatið að töluvert miklu leyti á huglægu mati í stað þess að nýttar væru hlutlægar aðferðir til að meta áhættu. Að lokum skorti umfjöllun um tíðni eftirlits með áhættuþáttum í áhættumatinu eftir því sem við átti,“ segir í niðurstöðu FME.

Fram kemur meðal annars að í vettvangsathugun FME hafi komið í ljós að í 20% tilvika voru reiðufjárviðskipti skráð á rangan textalykil.

Þekkja ekki virkni færslueftirlits vegna gervigreindar

Þá var færslueftirlit bankans talið ábótavant.

„Í vettvangsathuguninni kom í ljós að bankinn þekkir ekki að öllu leyti virkni færslueftirlitskerfisins sem bankinn notar, m.a. vegna leyndar að baki gervigreindarlausnum sem kerfið byggir á. Þannig gat bankinn ekki gefið fjármálaeftirlitinu greinargóðar skýringar á ýmsum flöggum eða skorti á flöggum varðandi úrtak fjármálaeftirlitsins,“ segir í niðurstöðunni.

Staðfesting á raunverulegu eignarhaldi ábótavant

Staðfesting á raunverulegu eignarhaldi var talið að nokkru ábótavant að mati eftirlitsins. Í úrtaki fjármálaeftirlitsins voru átta lögaðilar og var í tveimur tilvikum ekki búið að sannreyna eða staðfesta eignarhald með fullnægjandi hætti.

Framkvæmd aukinna áreiðanleikakannana á áhættumeiri viðskiptamönnum var þá talið verulega ábótavant.

„Í úrtaki fjármálaeftirlitsins voru 13 viðskiptamenn og voru auknar áreiðanleikakannanir og/eða skjalfesting þeirra í engum tilvikum fullnægjandi,“ segir í niðurstöðunni.

Fjármálaeftirlitið fór fram á að bankinn myndi fela innri endurskoðanda að gera úttekt á hvort farið hafi verið að úrbótakröfum með fullnægjandi hætti og að gerði yrði grein fyrir úttektinni og niðurstöðum hennar í sérstakri skýrslu sem send yrði fjármálaeftirlitinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK