Hafa selt um 350.000 dósir

Davíð Sigurðsson, vörumerkjastjóri Collab hjá Ölgerðinni.
Davíð Sigurðsson, vörumerkjastjóri Collab hjá Ölgerðinni. Ljósmynd/Ólafur Hannesson

Aðeins eru fimm ár liðin síðan Collab kom á markað en á þeim tíma hefur drykkurinn skotið rótgrónum alþjóðlegum drykkjum á borð við Pepsi og Coke ref fyrir rass og fest sig í sessi sem verðmætasta drykkjarvörumerki landsins. Þetta segir Davíð Sigurðsson, vörkumerkjastjóri Collab hjá Ölgerðinni. Í vor setti fyrirtækið á markað Collab Hydro sem hefur sömuleiðis fengið góðar viðtökur.

Sjálfbærnin er mikilvæg

„Fyrstu dósirnar fóru út úr húsi hjá okkur upp úr miðjum apríl og varan er því komin með rétt rúmlega tveggja mánaða reynslu. Á þessum tíma höfum við selt um 350.000 dósir og því óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið góðar. Þetta magn er nokkurn veginn í takt við okkar áætlanir og meira að segja rétt yfir þeim,“ segir Davíð sem segir Collab Hydro einstakan drykk ef horft er til notkunar á íslensku hráefni. Drykkurinn sé með framleiddur sérþróaðri blöndu steinefnasalta og vítamína sem hraði endurheimt líkamans. Í drykknum er bæði steinefnasalt og kollagen sem unnið er úr íslenskum sjó auk D-vítamíns. Þá sé drykkurinn kolvetnalaus.

„Líkt og með upphaflegu útgáfu Collab þá er sjálfbærni stór þáttur í þróuninni. Kollagenið er sem fyrr unnið úr fiskroði sem fellur til við fiskvinnslu hérlendis og byggir á þeirri þróun sem við fórum í með nýsköpunarfyrirtækinu Feel Iceland á sínum tíma og Collab sprettur upp úr. Þarna erum við að nýta mikilvæg prótein til manneldis sem ýmist var hent eða unnið í mjöl hér áður fyrr,“ segir Davíð.  

Íslenska saltið virkar vel

„Sérstaða Collab Hydro liggur svo einnig í steinefnasaltablöndunni en þar settum við okkur í samband við íslenska saltframleiðendur og enduðum í samstarfi með Saltverki sem skaffar okkur hluta steinefnasaltanna. Stærsta atriðið þegar kemur að kolefnisspori er svo auðvitað að við framleiðum drykkinn hérlendis úr íslensku vatni með 100% endurnýtanlegri orku. Þetta skilur eftir sig margfalt lægra kolefnisspor eins greint hefur verið í þaula. Með Collab Hydro gefst því neytendum ekki einungis sá kostur á að velja bragðgóðan virknidrykk heldur einnig íslenskt vatn, kollegan og steinefnasalt.“

Virknidrykkir þeir vinsælustu í dag

Sú tíð virðist liðin að hefðbundnir gosdrykkir njóti mestra vinsælda hjá neytendum. Davíð segir að undanfarin ár hafi ýmsar tegundir virknidrykkja leitt vöxt í drykkjarvörugeiranum. „Það eru þá helst drykkir sem innihalda til að mynda prótín, koffín, steinefnasölt, vítamín og ýmislegt annað sem fólk sækist eftir í auknu mæli, oftar en ekki sem part af heilsusamlegum lífsstíl. Þessir drykkir eru í langflestum tilfellum sykurlausir. Collab hefur einmitt notið ótrúlegra vinsælda meðal neytenda kollagens og koffíns og hyggst nú þjóna landsmönnum á enn fjölbreyttari hátt með þessu nýja afbrigði.“

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu og mbl.is er nú unnið að útrás Collabs. Drykkurinn er fáanlegur í Danmörku, Finnlandi og Noregi. „Þetta er langhlaup og erfitt að segja til um árangur ennþá. Það má þó segja að viðtökurnar hjá verslunum hafi verið framar vonum og dreifingin því meiri en við sáum fyrir okkur í upphafi. Við erum komin lengst í Danmörku en þar fæst Collab á um það bil 1.000 útsölustöðum. Við hófum sölu í Noregi með fókus á heilsu- og netverslanir og erum ennþá í þeim fasa þar í tiltölulega afmarkaðri dreifingu en svo erum við strax í um 400 verslunum í Finnlandi á stuttum tíma.  En þó svo að listun í verslunum erlendis sé í dag margfalt meiri en hérlendis þá er salan hvergi nærri svipuð – enda tekur talsverðan tíma að byggja upp vörumerki. Markmiðið hefur verið að selja upp undir 10% af innlendri sölu á erlendum mörguðum í ár. Það má segja að það sé á áætlun.“

Verður mögulega flutt út

Davíð er að endingu spurður um það hvort áformað sé að Collab Hydro verði seldur í verslunum ytra. Hann segir engin áform um slíkt að sinni. „Við flýtum okkur hægt með útflutninginn og óhætt er að segja að það sé nóg af verkefnum þar þessa dagana. Það er hinsvegar ekki ólíklegt að Collab Hydro verði partur af útflutningnum seinna meir ef vel gengur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK