Gísli fjárfestir í Snjallgögnum

Gísli Kr. fjárfestir og fjárfestingarfélag hans Bright Ventures hafa bæst …
Gísli Kr. fjárfestir og fjárfestingarfélag hans Bright Ventures hafa bæst við eigendahóp Snjallgagna. Ljósmynd/Aðsend

Gísli Kr. og fjárfestingafélag hans, Bright Ventures, hafa bæst við eigendahóp sprotafyrirtækisins Snjallgagna. Aðrir bakhjarlar Snjallgagna núna eru Tennin, MGMT Ventures, Founders Ventures og Icelandic Venture Studio. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Snjallgögn er tíu manna hugbúnaðarhús með höfuðstöðvar í Reykjavík. Fyrirtækið þróar lausnir sem gera vinnustöðum mögulegt að hagnýta gervigreind og gagnavísindi til að efla sölu og þjónustu ásamt því að bæta daglegan rekstur.

Lykilvara Snjallgagna er gervigreindarkerfið Context Suite, sem er safn hugbúnaðarlausna og inniheldur meðal annars þjónustugreind, eftirspurnargreind og snjallmennið Mími.

Kemur inn með verðmæta sérþekkingu

Gísli Kr. hefur frá árinu 2010 setið í framkvæmdastjórn vaxta- og sprotafyrirtækjanna atNorth, áður Advania Data Centers, sem byggir og rekur gagnaver á Norðurlöndunum, og skýjatæknifélaginu Greenqloud. Bæði félögin hafa nú verið seld til erlendra aðila.

Gísli hefur lengst haft sölu og markaðsmál á sinni könnu, ásamt vöru- og viðskiptaþróun, en einnig borið ábyrgð á fjármálum og rekstri.

Síðastliðin 15 ár hefur Gísli einnig unnið sem ráðgjafi í sambandi við tæknilega innviði, viðskiptaþróun og markaðsmál ásamt því að sinna stjórnarsetu í ýmsum félagasamtökum.

„Það skiptir okkur hjá Snjallgögnum lykilmáli að fjárfestar í fyrirtækinu komi með verðmæta sérþekkingu að borðinu; þekkingu sem annaðhvort þarf að styrkja hjá okkur eða byggja upp frá grunni.

Gísli Kr. er einn af fáum íslenskum sérfræðingum á sviði sölu- og markaðsmála í upplýsingatækni, sem hefur jafnframt mikla reynslu af sölu til erlendra stórfyrirtækja,“ er haft eftir Stefáni Baxter, forstjóra Snjallgagna og einum stofnenda fyrirtækisins, í tilkynningunni.

Vill styðja við íslenska nýsköpun

„Það er mér hjartans mál að styðja við íslenska nýsköpun og gleðilegt að fá tækifæri til að taka þátt í jafn spennandi verkefni og Snjallgögnum. Gervigreindarlausnir Snjallgagna geta bylt rekstri fyrirtækja, ekki bara til framtíðar heldur strax í dag.

Stefán og kollegar hafa smíðað öflugt rekstrartól sem fyrirtæki og stofnanir, óháð stærð og staðsetningu, geta nýtt til að tryggja sína samkeppnishæfni og rekstrarhagkvæmni. Ég hlakka til að taka þátt í þessari verðugu vegferð,“ segir Gísli Kr. hjá Bright Ventures í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK