Byggja nýtt gervigreindargagnaver

Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center
Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center

Bandaríska fjarskipta- og gagnaversfyrirtækið Modularity og Borealis Data Center hafa gengið til samstarfs um verkefni sem felur í sér að leggja háhraðagagnatengingar neðansjávar fyrir alþjóðlega gagnaflutninga til og frá Íslandi og bjóða upp á gagnaversþjónustu fyrir stór verkefni á sviði gervigreindar.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Modularity sérhæfir sig meðal annars í þróun öflugra neðansjávar fjarskipta- og gagnastrengja en Borealis Data Center rekur gagnaver hér á landi og í Finnlandi.

Fram kemur að verkefnið sé til þess fallið að efla verulega gagnatengingar milli Íslands og Bandaríkjanna, auk þess að bæta tengingar landsins við meginland Evrópu. Áætlað er að fyrsti áfangi verkefnisins verði tekinn í notkun árið 2026.

Samstarfið er hluti af stærri áætlun sem miðar að því að mæta auknum kröfum um sjálfbæra stafræna innviði og styðja við þróun gervigreindar- og vélgreindarlíkana á alþjóðlegum markaði.

Ísland verði miðpunktur gervigreindarlausna

Í tilkynningunni segir að Ísland sé í kjörstöðu til að gegna lykilhlutverki í alþjóðlegum tengingum milli Norður-Ameríku og Evrópu, sem mun stórefla gagnaflutninga og fjarskiptatengingar til og frá landinu og efla samkeppnishæfni landsins.

„Svalt loftslagið á Íslandi býður upp á skilvirka kælingu fyrir gagnaver, sem dregur verulega úr orkunotkun og kolefnisfótspori slíkra verkefna,“ er haft eftir Bill Barney, meðstofnanda og stjórnarformanni Modularity í tilkynningunni.

 „Með því að nýta þessa einstöku kosti má byggja háþróaða gervigreindarmiðstöð á Íslandi sem verður fyrirmynd á heimsvísu þegar kemur að orkunýtni og sjálfbærni,“ segir hann enn fremur.

Þá segir að samstarfið muni hafa jákvæð áhrif á þróun stafrænnar tækni og upplýsingatækniinnviða á Íslandi, auk þess sem það skapa háframleiðni og hátæknistörf hér á landi og styrki samkeppnishæfni Íslands á sviði stafrænnar þjónustu og efli hugverkaiðnað enn frekar sem útflutningsstoð.

 „Verkefnið mun stuðla að því að Ísland verði einn af lykilstöðum fyrir háþróaðar gervigreindar- og upplýsingatæknilausnir á alþjóðlegum vettvangi og leiða til þess að íslenskur gagnaversiðnaður mun áfram stuðla að útflutningsvexti og tækniþróun á Íslandi,“ segir Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center í tilkynningunni.

Gagnaver Borealis á Blönduósi.
Gagnaver Borealis á Blönduósi.

Um Modularity

Að baki Modularity standa aðilar með umfangsmikla reynslu í þróun neðansjávarfjarskiptaneta og uppbyggingu gagnavera.

Fyrirtækið býður upp á lausnir sem einblína á sveigjanlega, sjálfbæra og hraðvirka innviði sem gera það að lykilaðila í stuðningi við stafræna þróun á nýjum mörkuðum.

Lausnir Modularity eru framleiddar í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum og dreift til alþjóðlegra markaða, þar sem þau leggja sitt af mörkum til uppbyggingar háþróaðra stafrænna innviða.

Um Borealis Data Center

Borealis Data Center leggur áherslu á rekstur sjálfbærra gagnavera á norðurslóðum en fyrirtækið rekur gagnaver á þremur stöðum hér á landi, á Blönduósi, Reykjanesbæ og í Reykjavík, og einnig í Finnlandi.

Fyrirtækið hefur nýlega hlotið ISO 27001/18/17 vottanir fyrir gagnaverastarfsemi sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK