Þurfi lög til að mæta græðgi viðskiptabankanna

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins. Samsett mynd

Líklega munu Íslandsbanki og Landsbankinn hækka sína vexti á verðtryggðum lánum eins og Arion Banki gerði fyrr í dag, að mati formanns Starfs­greina­sam­bands­ins. Hann sakar viðskiptabankana um græðgi og telur að þingmenn þurfi að axla þyngri ábyrgð á erfiðu efnahagsástandi í landinu.

Arion banki tilkynnti í dag um hressilegar vaxtahækkanir á verðtryggðum vöxtum sem hafa nú tekið gildi. Breytileg­ir íbúðalánavextir hækka um 0,60 pró­sentu­stig og verða 4,64%. Verðtryggðir fast­ir íbúðalánavextir hækka um 0,50 pró­sentu­stig og verða 4,74%. Og verðtryggðir breytilegir kjörvextir hækka einnig um 0,75 prósentustig og verða 6,2%.

Bankinn segir að vaxtahækkanirnar séu „meðal ann­ars til­komn­ar vegna hækk­un­ar á ávöxtunarkröfu verðtryggðrar fjár­mögnunar“.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins, er vægast sagt ósáttur.

„Græðgi viðskiptabankanna þriggja er taumlaus,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is. „Og henni ætlar aldrei nokkurn tímann að ljúka.“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólk þvingað í verðtryggð lán, sem hækka nú

Stýrivextir, sem hafa nú numið 9,25 prósentum í rúmt ár, hafa aðeins bein áhrif á óverðtryggð lán. Samhliða háu vaxtastigi hafa því æ fleiri sóst eftir verðtryggðum lánum frekar en óverðtryggðum. En nú hækkar Arion banki vexti á verðtryggðum lánum.

„Þetta er skólabókardæmi um það að þegar fólk er núna þvingað eins og sauðfé til slátrunar úr óverðtryggðum vöxtum í verðtryggða vexti að þá fara bankarnir strax í það að hækka vextina duglega á verðtryggðu lánunum,“ segir Vilhjálmur.

Viðskiptabankarnir þrír eru Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn.
Viðskiptabankarnir þrír eru Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn. Samsett mynd

Vilhjálmur segir það með ólíkindum að sjá Arion banka hækka vexti um 0,50-0,75 prósentustig. „Og hinir bankarnir munu örugglega fylgja í kjölfarið. Trúðu mér,“ bætir hann við.

Hvers vegna telurðu að hinir viðskiptabankarnir [þ.e. Landsbankinn og Íslandsbanki] muni fylgja fordæmi Arion banka?

„Það er bara vegna þess að græðgin mun bera bankana ofurliði eins og vanalega, þar sem vaxtamunur hefur verið að stóraukast, hreinar vaxtatekjur bankanna hafa verið að stóraukast,“ svarar hann.

1% verðbólga skili bönkunum 4,9 milljarða

Vilhjálmur bendir einnig á að verðtryggingajöfnuður viðskiptabankanna þriggja sé í sögulegu hámarki og nemi nú 490 milljörðum. Bankarnir eigi sum sé meira í verðtryggðum eignum heldur en skuldum.

„Það þýðir líka á mannamáli að 1% verðbólga skilar viðskiptabönkunum 4,9 milljarða ávinningi,“ segir Vilhjálmur enn fremur. Það sé því enginn hvati hjá fjármálakerfinu til að ná niður verðbólgu í landinu og slá á þenslu og annað slíkt.

„Þeir einu sem hagnast á þessu ástandi í íslensku samfélagi á liðnum misserum er fjármálakerfið, eins og ætíð,“ segir hann og bætir við að viðskiptabankarnir hafi frá bankahruni skilað hagnaði upp á 1.000 milljarða.

„Löngu löngu löngu tímabært“ að þingið axli ábyrgð

Vilhjálmur telur að þingmenn þurfi að gera lagfæringar á íslenska fjármálakerfinu. Það gangi ekki að stjórnmálafólk beri ítrekað fyrir sig sjálfstæði Seðlabankans og láti sem bundið í báða skó.

„Það er löngu löngu löngu tímabært að stjórnmálamenn fari að axla sína ábyrgð gagnvart neytendum, heimilum og fyrirtækum þessa lands. Því þetta bitnar illilega á öllum þessum aðilum,“ segir Vilhjálmur.

Hann bendir á að þegar verðtrygging var sett á árið 1979 hafi verið rætt að myndu vextir á lánum verða í kringum 1-2%, í ljósi þess að fjármagnskerfið væri varið fyrir verðbólgu.

En núna eru verðtryggðir vextir að detta í tæp fimm prósent.

„Á meðan bólgnar fjármálakerfið út eins og enginn sé morgundagurinn, skila hér upp undir 100 milljörðum í hagnað á hverju einasta ári liggur við.“

Búnir að ýta allri þessari ábyrgð á Seðlabankans

„Ég bara skil ekki að alþingismenn skuli ekki hafa það að forgangsmáli að laga hér fjármálakerfið – íslenskum heimilum, neytendum og fyrirtækjum til heilla.“

En hvernig eiga alþingismenn að axla sína ábyrgð gagnvart efnahagsástandinu í landinu? Það er einfalt, að mati Vilhjálms: lagabreytingar.

„Þeir [stjórnmálamenn] eru búnir að ýta allri þessari ábyrgð á Seðlabankans, búnir að gera hlutina þannig að þeir beri enga ábyrgð, bara ætíð bent á að Seðlabankinn sé sjálfstæð stofnun og að það megi ekkert skipta sé að því.“

Alþingismenn hafa löggjafarvald á Íslandi og Vilhjálmur telur að breyta þurfi lögum svo að ábyrgðin liggi meira hjá pólitíkinni, að minnsta kosti hvað verðbólgu og vexti varðar.

„Hér eru gríðarlegir hagsmunir undir. Heimilin skulda þrjú þúsund og tvö hundruð milljarða,“ segir verkalýðsleiðtoginn og endurtekur sig: „Þrjú þúsund og tvö hundruð milljarða.“

Vaxtalækkun um eitt prósent myndi því nema 32 milljörðum króna í ávinning handa íslenskum heimilum. Á sama tíma skulda fyrirtæki 3.400 milljarða, þannig að eitt prósent vaxtalækkun myndi nema 34 milljörðum króna.

„Þetta eru gríðarlega stórar tölur sem hér eru undir og íslensk heimilum sem hér eru undir og íslensk heimili geta ekki staðið undir þessu vaxtaokri sem fær að grassera hér ár eftir ár, áratug eftir áratug.“

Leiðrétt: Fyrst var haft eftir Vilhjálmi að sökum verðtryggingajöfnuðar, skilaði 1% verðbólga viðskiptabönkunum 49 milljónum króna. Það var ekki rétt. Heldur nemur upphæðin 4,9 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK