Nóg af kauptækifærum á markaðnum

Linda Jónsdóttir og Tryggvi Þorgeirsson stýra Sidekick Health sem hyggst …
Linda Jónsdóttir og Tryggvi Þorgeirsson stýra Sidekick Health sem hyggst halda áfram að vaxa með ytri og innri vexti. mbl.is/Árni Sæberg

Sidekick Health er rúmlega tíu ára gamalt heilbrigðistæknifyrirtæki sem á rætur að rekja til starfa stofnendanna, læknanna Tryggva Þorgeirssonar forstjóra og Sæmundar Oddssonar framkvæmdastjóra lækninga, í heilbrigðiskerfum bæði hér á landi og erlendis. Þeir upplifðu á eigin skinni afleiðingar þess að sjúklingar fengu ekki þann stuðning sem þeir þurftu og töldu brýna þörf á úrbótum í því hvernig staðið væri að meðferð við alvarlegum sjúkdómum og að nýta bæri tæknina til þess.

„Upphaflega sá ég þetta fyrir mér sem tímabundið verkefni samhliða sérnámi í barnalæknisfræði. En verkefnið vatt hratt upp á sig. Okkur fannst við geta haft meiri áhrif til úrbóta á stórum skala með þessu móti en með hefðbundnum læknisstörfum,“ segir Tryggvi í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann kveðst aðspurður sakna þess stundum að starfa sem læknir. „Það er mjög gefandi að vinna með sjúklingum og hafa jákvæð áhrif á líf fólks,“ svarar Tryggvi. „En vegferðin hjá Sidekick hefur verið gríðarlega skemmtileg. Við höfum náð frábærum árangri með stafrænum meðferðum við hinum ýmsu sjúkdómum, höfum náð að byggja upp öflugt teymi á okkar stærstu mörkuðum og náð að mynda sterkt samstarf við fimm af stærstu heilbrigðisfyrirtækjum heims. Mikilvægast af öllu er að sjá að við getum haft veruleg áhrif til að bæta útkomur í heilbrigðiskerfinu með okkar lausnum,“ segir Tryggvi.

Mikill styrkur

Linda Jónsdóttir, nýráðinn aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri fyrirtækisins, segir það mikinn styrk að forstjórinn og báðir stofnendur, Tryggvi og Sæmundur, séu læknar sem þekki heilbrigðiskerfið út og inn. Það gefi fyrirtækinu og lausnum þess mikinn trúverðugleika.

Linda starfaði áður hjá Marel í 15 ár, síðast sem framkvæmdastjóri rekstrar. Þar áður vann hún lengst af sem fjármálastjóri félagsins. „Hún kemur með mikla reynslu inn í þennan næsta kafla í sögu Sidekick Health,“ segir Tryggvi.

Hann bætir við að Linda sé hokin af reynslu þegar kemur að bæði ytri og innri vexti fyrirtækja í gegnum störf sín hjá Marel. Það muni nýtast Sidekick vel sem stefnir einmitt að áframhaldandi ytri og innri vexti á næstu misserum og árum.

Nú í sumar keypti fyrirtækið þýskt félag í sama geira og í fyrra var annað þýskt fyrirtæki keypt. Tryggvi segir að nóg sé af kauptækifærum á markaðnum. „Það er til fjöldi fyrirtækja sem bjóða upp á stafrænar sérhæfðar lausnir sem beinast gegn ákveðnum sjúkdómum sem gætu fallið vel að okkar kerfi. Þetta eru fyrirtæki sem framleiða sérsniðnar lausnir, svokallaðar „point“-lausnir, þar sem menn beina athyglinni að ákveðnu sviði og sjúkdómum. Okkar lausn er hins vegar „platform“-lausn sem getur tæklað marga sjúkdóma og meðferðir í einu smáforriti. Með uppkaupum á félögum eins og þeim þýsku komum við inn og skölum fyrirtækin og verkefnin upp.“

Virkar eins og brú

Í grunninn virkar Sidekick Health-appið eins og brú á milli sjúklings og heilbrigðiskerfis. Lyfjafyrirtæki, sjúkratryggingafyrirtæki eða spítalar gefa sjúklingnum aðgang að smáforritinu og inni í því nálgast hann meðferðir við sjúkdómum. Læknar og hjúkrunarfræðingar fylgjast með á hinum endanum, veita leiðbeiningar, leiða sjúklinginn í gegnum hvern einasta dag og segja hvaða skref eru nauðsynleg til að bæta útkomur og líðan.

Þrjú hundruð manns vinna nú hjá félaginu en um helmingur vinnur hjá þýsku félögunum tveimur.

Nánar um hugmyndina á bak við fyrirtækið segir Tryggvi að í grunninn sé tæknin nýtt til að bæta hvernig alvarlegir sjúkdómar eru meðhöndlaðir. Það sé gert á fleiri en eina vegu. „Eitt af því er fjarvöktun. Við fjartengjum sjúklinga við heilbrigðisstarfsfólk. Þannig er hægt að flagga ef eitthvað óvenjulegt kemur upp og grípa inn í áður en í óefni er komið. Svo styðjum við fólk í breytingum á lífsháttum. Það getur haft jafn mikil áhrif og lyfjameðferðir. Þetta sambland af fjarvöktun og þessum stuðningi við fólk er að gefa mjög góða raun.“

Rannsóknir sýna að notendur appsins fá í mörgum tilfellum 25-40% bætingu á einkennum sinna sjúkdóma. Einnig sýna rannsóknir 39% færri komur á bráðamóttökur hjá fólki með krabbamein í Bandaríkjunum. „Bandarískir samstarfsaðilar okkar sjá jafnvel þúsundir dollara á ári í sparnað á hvern sjúkling, sem er jafnvirði mörg hundruð þúsunda íslenskra króna, og á sama tíma bættar útkomur sjúklinga. Þetta fæst með því að fyrirbyggja versnun sjúkdóma og þannig dýr og flókin inngrip heilbrigðiskerfisins. Þannig búum við til verðmætin.“

Tryggvi segir að Sidekick einbeiti sér í dag að yfir 20 helstu alvarlegu sjúkdómum, eins og krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum.

Ítarlega er rætt við Lindu og Tryggva í ViðskiptaMogganum í dag. Þar er meðal annars farið yfir stærð þeirra á þýskum markaði, þróun markaðs með heilbrigðisforrit, krefjandi yfirtöku, framtíðarsýn félagsins og mögulega skráningu á markað. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK