Árni verði næstráðandi í JBT Marel

Árni Sigurðsson, forstjóri Marels.
Árni Sigurðsson, forstjóri Marels.

John Bean Technologies Corporation (JBT) hefur kynnt fyrirhugað framtíðarskipulag JBT Marel.

Árni Sigurðsson forstjóri Marels ber þar titilinn „president“ og heyrir undir forstjóra. Brian Deck, forstjóri JBT, verður forstjóri sameinaðs félags. Matt Meister verður fjármálastjóri. Önnur nöfn er ekki að finna á skipuritinu, enn sem komið er.

Skipulagsbreytingarnar sem lagðar eru til eru háðar því að af sameiningu félaganna verði og tækju gildi eftir uppgjör viðskiptanna.

Fjögur vörusvið

Vörusvið fyrirtækisins verða fjögur, ef af sameiningu verður, og skiptast í alifuglakjöt, fisk og RFS (verslunar- og veitingaþjónustu), kjöt og tilbúinn mat, og annað fæði og heilsu.

Fiskur og RFS og „annað fæði og heilsa“ munu heyra beint undir Árna, en kjöt og tilbúinn matur og alifuglakjöt mun heyra undir Deck.

Undir „annað fæði og heilsu“ fellur meðal annars grænmeti og ávextir og gæludýra fóður, að uppistöðu sú starfsemi sem varð hluti af Marel er fyrirtækið keypti bandaríska fyrirtækið Wenger árið 2022. 

Viðskiptin verði frágengin fyrir árslok

JBT hefur, eins og áður hefur verið tilkynnt um, lagt fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt útgefið og útistandandi hlutafé í Marel.

Yfirtökutilboðið gildir til, eftir því hvort gerist fyrr, þess dags þegar þrjár vikur eru frá því að skilyrði valfrjálsa tilboðsins er snúa að samþykki eftirlitsyfirvalda hafa verið uppfyllt eða fallið hefur verið frá því, eða kl. 17 að íslenskum tíma mánudaginn 11. nóvember 2024, nema tilboðstímabilið verði framlengt.

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um að hefðbundin skilyrði hafi verið uppfyllt, þar með talið samþykki frá viðeigandi eftirlitsaðilum og samþykki hluthafa Marel. Gert er ráð fyrir að viðskiptin verði frágengin fyrir árslok 2024.

Marel hefur ráðið J.P. Morgan sem fjármálaráðgjafa og jafnframt fengið Rabobank til að gefa stjórn félagsins sjálfstætt álit varðandi sanngirni á greiðslu til hluthafa í fyrirhuguðu yfirtökutilboði. Lagalegir ráðgjafar Marels eru Baker McKenzie (Bandaríkin), BBA/Fjeldco (Ísland), og Osborne Clarke (Holland).

Fréttin hefur verið uppfærð með nánari upplýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK