Auknum kröfum hefur fylgt mikill kostnaður

Sveifla pendúlsins hefur verið að snúast í sjálfbærnimálum og fyrirtæki hafa í auknum mæli verið að breyta áherslum sínum á því sviði.

Þetta segir María Björk Einarsdóttir forstjóri Símans en hún er gestur viðskiptaþáttar Dagmála á mbl.is í dag.

Síminn tilkynnti á dögunum að fyrirtækið hefði lagt niður svið sjálfbærni og menningar. María Björk segir að ekki sé um að ræða breytingu á áherslum í þessum málum heldur tilfærslu á ábyrgð innan skipuritsins.

„Það má segja að pendúllinn hafi sveiflast heilan hring en auknum kröfum á fyrirtæki er varðar sjálfbærni fylgdi grænþvottur og misinnihaldsríkar samfélagsskýrslur. Nú er kominn samhljómur í atvinnulífinu um að fyrirtækin uppfylli þær kröfur sem settar eru á okkur og um góða stjórnarhætti,“ segir María Björk og bendir á að fyrirtækin horfi í auknum mæli til tækniframfara og þróunar sem muni ráða orkuskiptum á heimsvísu.

Auknum kröfum um sjálfbærni hefur fylgt mikill kostnaður en ráðgjafarkostnaður fyrirtækja almennt hefur margfaldast að sögn Maríu Bjarkar.

Mikilvægt að sporna gegn gullhúðun

Hún bendir á að í sjálfbærnimálum fylgi Ísland regluverki frá Evrópusambandinu en hávær gagnrýni hefur beinst að stjórnvöldum fyrir að ganga lengra en þörf krefur við innleiðingu regluverksins.

„Það er mikilvægt að við setjum ekki strangari kröfur en nauðsynlegt er,“ segir María Björk.

Til dæmis náði upphaflega Evróputilskipunin til 35 íslenskra fyrirtækja en eftir að tilskipunin var innleidd í íslenskt regluverk þar sem séríslenskar viðbótarkröfur voru settar náði hún til 233 fyrirtækja með tilheyrandi kostnaði fyrir fyrirtækin.

„Það er mikilvægt að við spornum gegn gullhúðun og sem betur fer hefur verið vitundarvakning um þann kostnað sem henni fylgir,“ segir María Björk.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK