Mjúk lending ekki líkleg

Már Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands.
Már Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands.

Már Wolfgang Mixa, dósent við Háskóla Íslands, segir mjúka lendingu ekki líklega í kjölfar þess að vaxtastigi hafi verið haldið háu mjög lengi.

Þetta segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann en fjallað var um Fjármálastöðugleikarit Seðlabankans á miðopnu blaðsins í dag.

„Ég hef áhyggjur af því að þessi mjúka lending verði allhörð. Raunvaxtastigið er svakalega hátt um þessar mundir,“ segir Már og bendir á að samkvæmt vaxtatöflu Landsbankans hafi verðtryggðir breytilegir vextir aldrei verið jafnháir og í dag.

„Ef verðbólga lækkar þá breytir það ekki miklu fyrir íslensk heimili ef stýrivextirnir lækka ekki almennilega samhliða. Því ef verðbólga lækkar og stýrivextir haldast háir þá aukast einfaldlega raunvextir sem þýðir að vaxtaprósentan á verðtryggðu lánunum helst há og hækkar jafnvel eins og undanfarið. Á sama tíma lækka óverðtryggðu vextirnir ekki heldur,“ segir Már og bætir við að verið sé að binda þá við stýrivexti og það hafi því sáralítil áhrif á lántakendur.

Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti um 25 punkta í morgun.
Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti um 25 punkta í morgun. Ómar Óskarsson

Hann segir vaxtalækkanirnar á tíma kórónuveirufaraldursins skiljanlegar í ljósi stöðunnar sem uppi var þá og að miklar vaxtahækkanir undanfarin misseri hafi verið afleiðingar af því.

„Það er augljóst mál að Seðlabankinn ætlar að vinda ofan af þessum húsnæðisverðshækkunum. Það er yfirlýst stefna og kaldhæðni að gera slíkt þegar peningastefna Seðlabankans setti olíu á eldinn á hækkunum húsnæðisverðs með því að halda stýrivöxtum svona lengi lágum í kjölfar covid-faraldursins,“ segir Már.

Fasteignaverð lækki til lengri tíma

Spurður um horfur á fasteignamarkaði segir Már það vera vonlausan leik að reyna að spá fyrir um fasteignaverð en til lengri tíma ætti fasteignaverð að lækka.

„Leiguverð hefur oft verið fyrirboði um þróun húsnæðisverðs. Þrátt fyrir miklar hækkanir leiguverðs undanfarna mánuði hefur húsnæðisverð hækkað töluvert meira undanfarin ár. Út frá þessum tveimur breytum myndi maður halda að stór hluti húsnæðishækkana sé nú þegar yfirstaðinn. Mér finnst merkilegt að húsnæðisverð hafi ekki hækkað meira en það hefur gert eftir að 0,8% húsnæðis fóru af markaðnum eftir jarðhræringarnar í Grindavík. Ég varð hissa að húsnæðisverð hækkaði ekki meira í tengslum við þær hamfarir,“ segir Már.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK