Rannsakar ákvarðanir kynjanna

Arna segir að í kringum verkefnið sé byggt upp sérstakt …
Arna segir að í kringum verkefnið sé byggt upp sérstakt teymi sem illmögulegt væri með öðrum styrkjum. Eyþór Árnason

Dr. Arna Olafsson, dósent í fjármálum við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, CBS, fékk nú í sumar stærsta styrk sem Evrópska rannsóknarráðið, ERC, veitir ár hvert til fjármála- og hagfræðirannsókna. Styrkinn, sem er upp á 1,5 milljónir evra, jafnvirði 224 milljóna íslenskra króna, fékk hún til að rannsaka af hverju konur og karlar taka ólíkar fjármálaákvarðanir.

Rannsóknin mun hefjast um mitt ár 2025 og standa í fimm ár.

Í frétt um málið á vef CBS segir að mismunur í fjármálahegðun kynjanna sé vel þekktur. Til dæmis séu konur mun ólíklegri til að fjárfesta á hlutabréfamarkaði en karlar. Enn fremur hafi konur að meðaltali lægri lífeyrissparnað en karlar, á meðan karlar séu skuldsettari, þegar leiðrétt er fyrir námslánum. „Við vonumst til að rannsóknin gefi okkur 360° sýn á fjármálaákvarðanir einstaklinga, hvað þeir eru að gera og hugsa. Þetta hefur aldrei verið gert áður,“ segir Arna í samtali við ViðskiptaMoggann.

Um gildi rannsóknarinnar segir Arna að hún geti orðið ákveðinn byrjunarreitur fyrir fræðasamfélagið. „Við vitum rosalega lítið í dag um það hvernig fólk tekur fjármálaákvarðanir. Ég vonast eftir miklu samtali og rökræðum. Ég vil fá marga að borðinu því málefnið er mjög mikilvægt. Í dag er svo erfitt að ræða þetta því vitneskjan er engin. Við verðum almennt að reyna að skilja hluti til að taka upplýstari ákvarðanir. Þá getum við búið til betra samfélag. Væntur ábati er gríðarlegur.“

Nýtist í vöruþróun

Við rannsóknina verður byggt á spurningakönnunum og ópersónugreinanlegum gögnum frá Landsbankanum. Um það hvað bankinn muni fá út úr samstarfinu segir Arna að hann vilji stuðla að meiri þekkingu í samfélaginu á því hvers vegna kynin nálgist fjármál með ólíkum hætti. Niðurstöðurnar muni vafalítið nýtast í vöruþróun innan fyrirtækisins. „Bankinn vill stuðla að meiri þekkingu í samfélaginu sem vonandi mun draga úr þeim mun sem er á ákvörðunum og árangri kynjanna af fjárfestingum. Ef Landsbankinn skilur betur hvað ræður ákvörðunum fóks getur hann búið til sérsniðnar lausnir og hjálpað fólki að ná betri fjármálaheilsu.“

Arna segir að það sé mikill heiður fyrir bæði sig og CBS að fá styrkinn. „Skólinn hefur sett upp sérstakt hvatakerfi til að fá fólk til að sækja um. ERC veitir um 10 styrki á ári í hagfræði og fjármálum í allri Evrópu og umsóknir eru margar,“ útskýrir Arna.

Arna segir að í kringum verkefni sem þetta sé byggt upp sérstakt teymi sem illmögulegt væri með öðrum styrkjum sem í boði eru. „Þú þarft að sýna fram á að þú getir leitt slíkt teymi og hafir fræðilegan bakgrunn m.a. Þeir styrkja ekki verkefni sem eru auðveld í framkvæmd heldur flókin mál sem taka mikinn tíma.“

Arna segir að á síðustu árum hafi hagfræðin flust frá því að horfa á þjóðhagsreikninga og þjóðhagsgögn yfir í að horfa á gögn um hegðun einstaklinga og fyrirtækja. „Á sama tíma er nú gerð krafa um betri gögn. Fyrir 30 árum var meira horft á gögn sem hið opinbera safnaði á hagstofum sínum, en áhugaverðustu gögnunum í dag er safnað af einkaaðilum. Þannig að til að svara hinum stóru spurningum samtímans erum við háð því að fá þau gögn. Ef við ætlum að búa til þá þekkingu sem mest þörf er á til að bæta samfélagið fyrir alla þá þarf samstarf á milli akademíunnar og einkageirans,“ segir Arna og bendir á að til dæmis sé mikið vatn runnið til sjávar frá því á árunum fyrir fjármálahrunið þegar spámódel sögðu ekki nægilega vel fyrir um raunveruleikann. „Í dag er gerð meiri krafa um að módelin byggi á forsendum sem studdar eru raungögnum en séu ekki úr lausu lofti gripnar.“

En koma fleiri kyn inn í myndina en karl og kona? „Nei, það er tölfræðilega ómarktækt. Þrátt fyrir góðan vilja náum við því ekki inn í rannsóknina.“

Arna segir að Ísland sé frábær staður til að gera rannsókn sem þessa því landið sé ekki of stórt. „Og hér erum við með banka sem er með mikla markaðshlutdeild. Það er erfitt að finna sambærilegan banka í útlöndum. Þá er mun betur haldið utan um gögn hjá íslenskum bönkum en erlendum.“

Arna segir að rannsóknir sýni að fólk á Vesturlöndum sé allt mjög svipað þegar kemur að fjármálaákvörðunum.

Spurð um mýtur um að sumar þjóðir séu sparsamari en aðrar segir Arna að þarna sé það oft kerfið sem stjórni hegðuninni. „Þar sem félagslegt kerfi er sterkt eins og á Norðurlöndum er fólk tilbúið að skuldsetja sig meira en fólk í Bandaríkjunum t.d. Það býr við félagslegt öryggi og afleiðingar af fjárhagslegum erfiðleikum eru ekki eins alvarlegar,“ segir Arna að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK