Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, segir að könnun sem Gallup gerði meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sýni að flestar efnahagsstærðir sem skipta máli þar séu að komast í jafnvægi.
Þetta kom fram á fundi sem Seðlabanki Íslands hélt í morgun þar sem farið var yfir ákvörðun peningastefnunefndar bankans.
„Segjandi það, þá veit ég það líka að við höfum setið á fundum og haldið að þetta væri að koma, síðan hefur næsta mæling farið í hina áttina. Þess vegna er þetta dálítið spurningin, eigum við að bíða og sjá hvort næsta mæling verður upp á við aftur?
Ég veit ekki hvort þið munið eftir haustinu september 22 [2022] þegar allir mælikvarðar á vinnumarkaði voru í rétta átt og svo fóru næstu mælingar upp. Þannig að þetta var svolítið spurningin hvort við eigum að bíða og sjá hvort að næsta mæling verður í rétta átt eða ekki, eða eigum við að prófa þetta,“ sagði Rannveig.
Hún ítrekaði að nefndin væri að taka varfærin skref.
„Það er alls ekki gefið að það verði vaxtalækkun á næsta fundi, það fer algjörlega eftir því hvað gerist á milli funda. Við erum ekki komin á einhvern sleða sem fer á húrrandi fart niður Esjuna þó að við tökum fyrsta skrefið, þannig að það sé alveg skýrt,“ bætti hún við.
Rannveig sagði ljóst að allir væru sammála um að það væri að hægja á hagkerfinu, en það hefði aftur á móti verið að gerast í hænuskrefum.