Bú Flugfélagsins Ernis ehf. var með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, uppkveðnum 27. september, tekið til gjaldþrotaskipta og var Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður skipuð skiptastjóri búsins. Frá þessu er greint í Lögbirtingablaði sem birtir innköllun.
Greint var frá því hér á mbl.is fyrir hálfum mánuði að gjaldþrotabeiðni hefði verið lögð fram til höfuðs félaginu og sagði Sigurður Bjarni Jónsson, stjórnarformaður Ernis og Mýflugs, sem fer með stóran hlut í Erni, að eignir hefðu verið seldar fyrir um 1,2 milljarða króna og eftir stæði um 300 milljóna skuld.
Í innköllun Lögbirtingablaðsins er að vanda skorað á alla þá, sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur búinu eða eigna í umráðum þess, að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða frá birtingu innköllunar.