Segir allt aðra mynd blasa við nú

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir í samtali við ViðskiptaMoggann að þrátt fyrir að ný efnahagsspá frá Seðlabankanum liggi ekki fyrir sé ljóst að allt önnur mynd af hagkerfinu blasi nú við.

Heildarmyndin sýni að farið sé að hægja verulega á. Hann segir það kunna að vera að verðbólguspá Seðlabankans hafi verið of svartsýn og verðbólgan verði raunverulega lægri en talið sé.

„Mér finnst aðstæður hafa breyst töluvert. Við sáum eilitla uppsveiflu í vor strax eftir að kjarasamningarnir voru gerðir og eignarhaldsfélagið Þórkatla réðst í uppkaup á fasteignum í Grindavík. Það sem við sjáum nú, eftir að tekið er að hausta, er að þessi upptaktur hefur dáið út. Efnahagslífið virðist vera að kólna,“ segir Ásgeir en bætir við að íslensk heimili séu sterk fjárhagslega, auðvitað sé staða fólks hins vegar misjöfn.

„Aftur á móti eru heimilin almennt séð með mikinn kaupmátt og góða eiginfjárstöðu enda alla jafna ekki mikið skuldsett,“ segir Ásgeir.

Hann segir að ráðningaráform fyrirtækja hafi breyst og lítið sé um ráðningar í öllum geirum nema byggingargeiranum, en svo virðist sem vöntun sé á iðnaðarmönnum.

Verðbólguvæntingar til langs tíma töluvert ofar markmiði

Skammtíma verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði hafa lækkað verulega en aftur á móti eru langtíma verðbólguvæntingar enn töluvert ofar verðbólgumarkmiði. Hann segir ýmsar tæknilegar ástæður geta legið þar að baki.

„Það er ljóst að háar verðbólguvæntingar gætu skapað möguleg vandamál, sérstaklega þegar kemur að síðasta spölnum að því að koma verðbólgu í markmið. Þær hafa hins vegar lækkað að undanförnu,“ segir Ásgeir.

Ferðaþjónustan verðlagði sig af markaðnum

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á þróun efnahagsmála næstu misserin segir Ásgeir að hann sé það vissulega.

„Ég er tiltölulega bjartsýnn. Við erum að fara úr þenslutímabili þar sem hagvöxtur var mikill en landsframleiðsla jókst um 20 prósent á þremur árum, frá 2021 til 2023. Nú er að hægja á hagkerfinu og það þarf líka að gerast. Peningastefnan okkar er að hafa áhrif,“ segir Ásgeir.

Hann segir að íslensk ferðaþjónusta hafi að einhverju leyti verðlagt sig af markaðnum.

„Eftirspurnin í ferðaþjónustugreininni hefur minnkað. Það er líka ákveðinn þrýstingur á sjávarútveginn, aflaheimildir hafa minnkað. Við sjáum samt ekki merki um mikinn samdrátt, við ættum að geta unnið okkur niður úr þessari hagsveiflu með varfærnum hætti,“ segir Ásgeir.

Hefur engar áhyggjur af vaxtamun

Að undanförnu hafa seðlabankar víða um heim lækkað stýrivexti.

Á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga á dögunum viðraði Lilja Dögg Alfreðsdóttir viðskipta- og menningarmálaráðherra áhyggjur af vaxtamunarviðskiptum.

Ásgeir segist engar áhyggjur hafa af því eins og sakir standa en vaxtamunurinn sé einn af þeim þáttum sem Seðlabankinn þurfi að fylgjast með.

„Við erum með þjóðhagsvarúðartæki á gjaldeyrismarkaði, það er að segja það eru takmarkanir á framvirkum samningum í gjaldeyri. Þessar takmarkanir eru settar til að koma í veg fyrir skammtímastöðutökur sem fara beint í gegnum markaðinn í gegnum skuldabréfakaup,“ segir Ásgeir og bætir við að takmarkanir á afleiðuviðskiptum skapi jarðsamband fyrir markaðinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka