RARIK og Orka náttúrunnar (ON) hafa skrifað undir samning um kaup RARIK á raforku ON til tveggja ára með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum, eitt ár í senn.
Var samningurinn gerður sökum dreifitapa á rafmagni til viðskiptavina.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá RARIK.
Í tilkynningu segir að alltaf tapist einhver hluti rafmagns á leið til viðskiptavina í dreifikerfi. Það sé raforka sem RARIK beri kostnað af og þurfi að tryggja að sé til staðar.
Ástæður tapsins eru til dæmis vegna hitamyndunar í strengjum dreifikerfisins vegna viðnáms þeirra.
Það segir RARIK þekkt eðlisfræðilögmál og því séu kaup á dreifitöpum órjúfanlegur hluti af starfsemi dreifiveitu eins og RARIK.
Lögum samkvæmt ber RARIk að bjóða út kaup á dreifitöpum og var það gert í haust. Fjögur fyrirtæki tóku þátt í útboðinu og bauð ON hagstæðasta verðið.
„Við erum afar ánægð með nýjan samning við RARIK. Dreifitöpin eru órjúfanlegur hluti notkunar almenns markaðar, sem eru fyrirtæki og heimili, og er það keppikefli fyrir Orku náttúrunnar að halda áfram að tryggja raforkuöryggi almenns markaðar. Virkjanir Orku náttúrunnar framleiða rúmlega 25% af allri raforkunotkun almenns markaðar, á meðan hlutdeild okkar er 17% af heildarframleiðslu landsins,“ er haft eftir Árna Hrannari Haraldssyni, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, í tilkynningu.
Samningur fyrirtækjanna er til tveggja ára með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum, eitt ár í senn. Verðbreytingar í samningnum koma til með að taka mið af markaðsverði raforku.
Í tilkynningu segir að um nokkra verðhækkun sé að ræða frá fyrri samningi vegna hækkandi markaðsverðs raforku.
„Við erum gríðarlega ánægð að hafa tryggt okkur þennan samning við Orku náttúrunnar. Það er stórt raforkuöryggismál að ná að tryggja kaup á þessari raforku fram í tímann. Þetta er einnig mikið hagsmunamál fyrir okkur, sérstaklega með tilliti til þess að margt bendir til að það gæti orðið skortur á raforku á næstu árum,“ er haft eftir Silju Rán Steinberg Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra RARIK.