Danska sjávarútvegsfyrirtækið Elite Seafood hefur gert samstarfssamning við Wisefish og danska ráðgjafarfyrirtækið Telos Team. Wisefish er í samstarfi við íslensku sjávarútvegsfyrirtækin Brim, Síldarvinnsluna og Eskju.
Eloise Freygang stjórnandi hjá Wisefish segir í samtali við Morgunblaðið að hugbúnaðarfyrirtækið hyggist stórefla stafræna þróun í sjávarútvegi með nýjum búnaði.
„Á heimsvísu hefur sjávarútvegurinn rekist á hindranir er snúa að stafrænni þróun og við hjá Wisefish ætlum okkur að nútímavæða iðnaðinn,“ segir Freygang í samtali við Morgunblaðið.
Hún lýsir því að skilvirk kostnaðarstjórnun skipti sköpum fyrir sjávarútveginn þar sem rekstrarkostnaður geti auðveldlega stigmagnast.
Wisefish muni gera Elite Seafood kleift að fylgjast með öllum kostnaði og hjálpa til við að finna veikleika sem þarfnast úrbóta. Að auki mun kerfið auðvelda samskipti við söluaðila og viðskiptavini, sem stuðlar að sterkari samböndum sem eru nauðsynleg til að ná árangri.
Wisefish er sérsniðin hugbúnaðarlausn fyrir sjávarútveginn og þjónustar fjölda fyrirtækja innanlands sem utan. Kjarninn í lausninni er að halda utan um rakningu og kostnað sjávarafurða frá veiðum. Elite Seafood, stofnað árið 2002 og leiðandi dreifingaraðili þekktur fyrir framleiðslu á sjávarfangi, valdi lausn Wisefish til að styðja og bæta starfsemi sína.
Freygang segir samstarfið munu bæta rekstur, fjármálastjórnun og umsjón viðskiptavinasambanda, sem gefur Elite Seafood forskot á sjávarútvegsmarkaðnum. Með virðis- og aðfangakeðju sem nær frá Íslandi til Tyrklands stendur Elite Seafood frammi fyrir flóknum áskorunum við stjórnun innkaupa, sölu, dreifingar og birgðahalds. Innleiðing viðskiptalausna Wisefish mun að sögn Freygang gera fyrirtækinu kleift að komast í gegnum áskoranir dagsins og tryggja að ferskt sjávarfang berist til viðskiptavina.
„Samstarf við Wisefish og Telos Team gerir okkur kleift að nútímavæða viðskiptahætti okkar,“ segir Jacob Thomsen, eigandi og forstjóri Elite Seafood, í samtali við Morgunblaðið.
„Með því að sjálfvirknivæða ýmsa ferla getum við einbeitt okkur frekar að því að skila framúrskarandi sjávarafurðum til viðskiptavina okkar auk þess sem það gerir okkur kleift að bregðast hratt við kröfum markaðarins á sama tíma og við höldum ýtrustu gæða- og ferskleikakröfum,“ segir Thomsen.
Umfjöllunin birtist í Morgunblaðinu í dag.