Íslenskur sjávarútvegur á mikið inni

Jón Kjartansson SU á loðnuveiðum.
Jón Kjartansson SU á loðnuveiðum. Ljósmynd/Börkur Kjartansson

Kristbjörg M. Kristinsdóttir, fjármálastjóri sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis, og Ágúst Ingi Bragason sérfræðingur hjá sama fyrirtæki segja í samtali við Morgunblaðið að sjávarútvegur á Íslandi eigi mikið inni. Til að mynda geti skapast hagræðing með sameiningu útgerða og betri nýtingu á nytjastofnum.

Þau segja að fjöldamörg tækifæri til verðmætasköpunar séu einnig til staðar í frekari vinnslu og megi þar nefna framleiðslu laxafóðurs úr mjöli og lýsi. Þær afurðir eru í dag nær alfarið fluttar úr landi til frekari vinnslu og lokaafurð svo flutt aftur heim að þeirra sögn.

Deild Stefnis Greining, sjálfbærni og sjálfvirkni hefur undanfarin tvö ár tekið saman ítarlegar greiningar á nokkrum mikilvægum atvinnugreinum íslensks efnahagslífs. Ein slík greining snýr að íslenskum sjávarútvegi, þróun hans og framtíðarhorfum. Meðal niðurstaðna greiningarinnar eru að undirstöður sjávarútvegsins á Íslandi séu stöðugar, skuldsetning hér sé hæfileg og veiðarnar arðbærar.

Nýsköpun og uppbygging

Kristbjörg segir að mikil nýsköpun og uppbygging sé í gangi í sjávarútveginum. „Það snýr bæði að útgerðunum sjálfum og veiðunum sem þær stunda og að sama skapi eru fjöldamörg fyrirtæki sem eru sprottin undan þróun sem hefur átt sér stað í sjávarútveginum. Þar má nefna félög eins og Marel, Kapp og Kerecis.“

Ágúst leggur áherslu á þátt Hafrannsóknastofnunar. „Við eigum Hafrannsóknastofnun mikið að þakka í því hversu framarlega við stöndum í skipulögðum sjálfbærum veiðum. Ég held að það sé einsdæmi í heiminum að sjálfstæð stofnun taki ábyrgð á því að útdeila aflamarki eftir ákveðnum reglum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskistofna til framtíðar.“

Hann bætir við að aflareglan sem sett var á árið 2009 í útreikningakerfi stofnunarinnar hafi bersýnilega leitt til þess að þorskstofninn, sem þótti mjög viðkvæmur í mörg ár, sé nú að taka betur við sér.

Kristbjörg segir að umræða um sjávarútveg sé heilt yfir jákvæð í samfélaginu. „Við erum með nokkur sjávarútvegsfyrirtæki á hlutabréfamarkaði sem er stórt skref í átt að breiðara eignarhaldi á félögunum. Það mætti þó vera meiri fjárfesting frá almenningi í þessum fyrirtækjum sem eru í dag að stórum hluta í eigu stórra einkafjárfesta og lífeyrissjóða. En það er samt jákvætt í stóru myndinni ef lífeyrissjóðir eru að fjárfesta í sjávarútvegstengdum félögum af öllum stærðum og gerðum. Með þeim hætti á almenningur undir í verðmætasköpun þeirra.“

Spurð að því hvort reiknað hafi verið út hve mikið væri hægt að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða miðað við það sem nú er segja þau Ágúst og Kristbjörg að verðmætin sem orðið hafa til séu þrotlausri vinnu sölufélaga í sjávarútveginum í gegnum árin að þakka. „Fiskurinn okkar er gæðavara sem við erum að fá yfirverð fyrir miðað við aðrar þjóðir. En allt frá því að fyrstu sölumiðstöðvarnar voru stofnsettar hér á árunum fyrir seinna stríð hafa þessi félög byggt upp gríðarlega sterkt alþjóðlegt vörumerki fyrir íslenskan fisk og við erum svo sannarlega að uppskera núna sem þjóð það sem þessi félög hafa sáð í gegnum árin. En það er alltaf rými til að gera enn betur. Þar er einkum mikilvægt að tryggja áframhaldandi nýsköpun í greininni.“

Var eitthvað sem kom á óvart í greiningarvinnunni?

„Eitt af því sem kom mér á óvart var að sjá hvað sjávarútvegurinn var gríðarlega hátt hlutfall af útflutningsverðmætum landsins á árum áður, og hvernig okkur hefur tekist að bæta stoðum við efnahag Íslands á síðustu áratugum án þess þó að draga úr umsvifum sjávarútvegs. Við erum sjávarútvegsþjóð í grunninn og höfum stuðst við þessa atvinnugrein lengi, en fólk áttar sig mögulega ekki á því hversu mikilvæg greinin hefur verið í uppbyggingu þeirrar velmegunar sem við lifum við í dag. Þá kom það mér einnig ánægjulega á óvart hvað skilvirknin í greininni er orðin aðdáunarverð og framþróunin mikil,“ segir Ágúst.

Tvö áhyggjuefni

Í greiningunni er rætt um helstu áskoranir í greininni. „Það eru aðallega tvö áhyggjuefni sem við bendum á. Í fyrsta lagi er það hin pólitíska áhætta sem beinist að kvótaeigendum í landinu. Hún birtist þá einkum í fælni fjárfesta við að leggja fé í rekstrarfjármuni og uppbyggingu vegna þeirrar óvissu sem ríkir um það hvernig verðmætunum verði háttað í sjávarútveginum. Fiskveiðistjórnunarkerfið er kannski ekki óumdeilt, en þetta er að öllum líkindum skilvirkasta kerfi í heimi fyrir útdeilingu verðmæta í hafinu. Kerfið hefur verið undirstaða þeirrar gríðarlegu fjárfestingar sem hefur átt sér stað í uppbyggingu sjávarútvegsinnviða og gert okkur kleift að byggja hér upp fiskiðju sem er ein sú fremsta í heimi.

Hin megináhættan er sjálfbærniáhætta og snýr að umhverfinu, hlýnun sjávar með tilheyrandi flökti í fiskistofnum og hrygningarsvæðum. Til dæmis höfum við séð lítið af makríl síðustu ár og síldin er mögulega að færa sig um set í hafinu sem og loðnan. Við erum því að sjá töluverðar breytingar á nokkrum af okkar verðmætustu nytjategundum.

Þá sjáum við hér einnig svart á hvítu hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er fyrir landsbyggðina. Greinin hefur verið lifibrauð margra byggðarlaga í gegnum tíðina og enn í dag er atvinnusköpun og verðmætasköpun á landsbyggðinni að stórum hluta sjávarútvegi að þakka,“ segja þau Kristbjörg og Ágúst að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK