Samþjöppun muni eiga sér stað

Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures.
Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures. mbl.is/Karítas

Íslensk ferðaþjónusta er frekar ung atvinnugrein sem er að þroskast. Það mun eiga sér stað samþjöppun í greininni. Þetta segir Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures í samtali við ViðskiptaMoggann.

Ásgeir Baldurs tók við stöðu forstjóra Arctic Adventures í maí á síðasta ári. Gréta María Grétarsdóttir gegndi áður stöðunni. Hann segir að það sem hafi heillað hann helst hafi verið áskorunin. 

„Ég hef alltaf haft mikinn metnað til að takast á við krefjandi verkefni í lifandi geira. Ég hef mikinn áhuga á þessum geira. Hann er virkilega mikilvægur og tækifærin fjölmörg til framtíðar.“

Ásgeir hefur gegnt fjölmörgum stöðum í íslensku atvinnulífi. Hann nam markaðsfræði og viðskiptafræði í Bandaríkjunum. Hann var einn af fyrstu starfsmönnum ráðgjafarfyrirtækisins Expectus og starfaði þar til ársins 2015 þegar hann var ráðinn til Straums.

Hjá Straumi sinnti hann fyrirtækjaráðgjöf, fjárfestingarverkefnum og eignastýringu, með áherslu á sérhæfðar fjárfestingar. Hann gegndi stjórnunarstöðu í fyrirtækinu og starfaði þar þegar fjölmörg fjármálafyrirtæki sameinuðust undir hatti Kviku.

Finnst þér þurfa fleiri sameiningar á fjármálamarkaði?

„Ég ætla ekki að leggja dóm á hvort það sé þörf á því en ég tel að það sé hægt að ná virðisaukningu með því að sameina ákveðna þætti innan geirans og sameina fyrirtæki og félög. Fjármálafyrirtæki og tryggingafélög hafa átt í góðu samstarfi, stundum hafa menn fundið út að það væri samlegð og stundum ekki. Ég held að það sé gott að auka hagkvæmni og búa til meiri skilvirkni. Ég tel þó að það séu tækifæri í öllum bransa og mikilvægt að hafa fjölbreytta flóru smárra og stórra eininga. Ég tel þó að vel útfærðir samrunar og stærri einingar séu af hinu góða, en það er að vísu þannig að ekki allir samrunar heppnast vel,“ segir Ásgeir.

Spurður hvaða áherslur hann hyggist koma með í starfið segist hann fyrst og fremst vera meðvitaður um að hann þurfi að læra á bransann. Hann er sammála þeirri stefnu sem núverandi hluthafar hafi lagt upp með. Sú sýn sé að byggja upp fyrirtæki með innri og ytri vexti sem sé stöndugt ferðaþjónustufyrirtæki og tilbúið til skráningar þegar tækifæri gefst.

„Hingað til hafa flugfélögin verið eini valkosturinn fyrir almenning til að fjárfesta í ferðaþjónustu. Það er spennandi að það verði fleiri valkostir,“ segir Ásgeir.

Straumlínulaga reksturinn

Á liðnu ári leiddu Stoðir hóp innlendra fjárfesta sem keyptu samanlagt um 44 prósenta hlut í Arctic Adventures fyrir 5,3 milljarða króna. Fjárfestingafélagið, sem bætti lítillega við hlut sinn í byrjun þessa árs, á 36,6 prósenta hlut í Arctic Adventures.

Rekstur Arctic Adventures einkenndist af miklum vexti og jukust rekstrartekjur og námu 7,2 milljörðum árið 2023, jukust um 44% milli ára. Samfara miklum vexti jókst kostnaður og stöðugildum fjölgaði úr 150 í 232. Af þeim sökum dróst hagnaður saman um 12 prósent og nam 187 milljónum króna. Stór ástæða fyrir minni hagnaði var einskiptiskostnaður eins og kostnaður við mannabreytingar og annar rekstrarkostnaður.

„Við vorum í vinnu við að endurskipuleggja reksturinn okkar. Það voru mannabreytingar hjá okkur á síðasta ári sem hafði áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Við höfum verið að vaxa mikið og það hefur haft kostnað í för með sér. Við sjáum fram á að afkoman á þessu ári verði betri en á því síðasta,“ segir Ásgeir.

Hann segir að nýtingin hjá fyrirtækinu hafi verið undir væntingum fyrri hluta ársins en hafi tekið við sér á seinni hlutanum.

„Það má segja að við höfum verið með vaxtarverki eftir mikinn vöxt á síðasta ári,“ segir Ásgeir.

Hann segir að í augnablikinu sé félagið ágætlega fjármagnað en vinna við endurfjármögnun er hafin.

Viðtalið birtist í heild í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK