Síminn hagnaðist um 864 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins

María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans.
María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans. mbl.is/María

Hagnaður var af rekstri Símans nam 864 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við hagnað að fjárhæð 932 milljónir króna á sama tímabili 2023.

Heildartekjur félagsins á tímabilinu 1. janúar til 30. september námu 20.401 milljónir króna samkvæmt rekstrarreikningi samanborið við 19.082 milljónir króna á sama tímabili árið 2023.

Eignir félagsins í lok tímabils námu 39.873 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi. Eigið fé nam 18.157 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 45,5%.

Tölur úr ársreikningi Símans. Nánari upplýsingar má finna í skýringum.
Tölur úr ársreikningi Símans. Nánari upplýsingar má finna í skýringum.

Kostnaður fylgdi breytingum

María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, segir að afkoma þriðja ársfjórðungs hafi heilt yfir verið góð og niðurstöðurnar sýni seiglu félagsins.

„Við sáum heilbrigðan tekjuvöxt í helstu fjarskiptaþjónustum sem og sjónvarpsþjónustu, þar sem áskrifendum hefur haldið áfram að fjölga. Þá hafa fjárfestingar okkar í auglýsingamiðlum staðist þær væntingar sem gerðar voru við kaupin og haft verulega jákvæð áhrif á hlutdeild auglýsingatekna í rekstri félagsins."

Í september gerði Síminn breytingar á skipuriti félagsins þar sem eitt stoðsvið var lagt niður og tvö ný svið stofnuð. Markmið breytinganna eru annars vegar að styrkja enn frekar sölu og markaðssetningu á vörum félagsins og hins vegar að auka áherslu á vöru- og viðskiptaþróun að því er fram kemur í tilkynningu. Talsverður kostnaður fylgdi þessum breytingum og bættist hann við áfallinn kostnað vegna forstjóraskipta sem einnig var gjaldfærður í ársfjórðungnum.

Í kjölfar breyttra áherslna í rekstri hófum við að endurskoða stefnumið félagsins og verða þau áform kynnt nánar á komandi mánuðum. Það liggur fyrir að félagið hyggst halda áfram að sækja fram og við munum leggja áherslu á að breikka tekjugrunn félagsins með því að þróa og bæta við vöruframboð okkar nýjum stafrænum þjónustum og lausnum sem falla vel að þörfum okkar viðskiptavina,“ er haft eftir Maríu Björk í tilkynnigu.

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 23. október 2024 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK