Hagnaður Icelandair dregst saman og gengið lækkar

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Icelandair eftir skatta nam 9,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs og dróst saman milli ára. Félagið gerir ráð fyrir betri afkomu á fjórða ársfjórðungi en það birti uppgjör eftir lokun markaða í gær.

Tekjur lækkuðu lítillega milli ára og EBIT-afkoma félagsins lækkaði um fjórðung milli ára. EBIT-afkoman var 11,4 milljarðar króna. Einingakostnaður lækkaði um 2% milli ára en einingatekjur drógust saman.

Gengi Icelandair hefur lækkað um 3,5% í 225 milljóna viðskiptum þegar þetta er skrifað.

Gera ráð fyrir betri afkomu á fjórða ársfjórðungi

Afkomuspá Icelandair gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skattabatni verulega á fjórða ársfjórðungi sökum hagræðingar í rekstri félagsins og lægra eldsneytisverðs.

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni í tilkynningu að með samstilltu átaki starfsfólks náði félagið að nýta sveigjanleika leiðakerfisins til að bregðast við breytingum á eftirspurn til Íslands og setja meiri þunga á markaðinn yfir Atlantshafið sem skilaði góðri sætanýtingu á þriðja ársfjórðungi.

Þessi eftirspurnarbreyting hafði þó áhrif á afkomu félagsins þar sem meðalfargjöld eru lægri á þeim markaði. Við hófum við umbreytingarvegferð á fyrri hluta þessa árs sem er þegar farin að skila árangri. Við erum að velta við öllum steinum og höfum sett fram aðgerðaráætlun sem mun bæta arðsemi félagsins og stuðla að því að við náum langtímamarkmiði okkar um 8% EBIT hlutfall. Markmiðið er að þessi vegferð muni skila 70 milljónum dala á ársgrundvelli í lok næsta árs og enn meira á árunum þar á eftir. Fjölmörg hagræðingarverkefni eru þegar í vinnslu og við höldum jafnframt áfram að styrkja tekjumyndun í gegnum fjölbreytta tekjustrauma, meðal annars í gegnum samstarf við önnur  flugfélög. Á þessu ári höfum við gert samstarfssamninga við fjögur flugfélög – Emirates, TAP, Air Greenland og Atlantic Airways. Þá voru það mikil tímamót þegar tilkynnt var að Icelandair yrði fyrsta samstarfsflugfélag Southwest Airlines, sem er á meðal stærstu flugfélaga Bandaríkjanna," segir Bogi í tilkynningu.

Lega Íslands helsta samkeppnisforskotið

Hann segir jafnframt að grunnurinn að viðskiptamódeli Icelandair og helsta samkeppnisforskot Icelandair sé landfræðileg lega Íslands.

Leiðakerfið er kjarninn í okkar starfsemi og býður upp á mikla tengimöguleika í Evrópu og Norður-Ameríku og enn fleiri í gegnum samstarfsflugfélög okkar. Þá mun tilkoma nýrra langdrægari flugvéla inn í flotann gera okkur kleift að opna nýja spennandi markaði og þar með styðja enn frekar við framtíðarþróun Íslands sem áfangastaðar og tengimiðstöðvar í flugi," segir Bogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK