Horfa heildrænna á manneskjuna

Halldór Harðarson og Kristján Pétur Sæmundsson hafa fengið mikil og …
Halldór Harðarson og Kristján Pétur Sæmundsson hafa fengið mikil og góð viðbrögð við nýja ráðningarfyrirtækinu. Þeir segja starfsmenn dagsins í dag lausbundnari fyrirtækjum en áður Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Í sumar var sett á laggirnar ný ráðningarstofa, Brú Talent, en fyrirtækið er systurfélag ráðgjafarfyrirtækisins Brúar Strategy.

Stofnandi í félagi við Brú Strategy er Kristján Pétur Sæmundsson, fyrrverandi ráðningastjóri Icelandair. Hann er jafnframt framkvæmdastjóri hins nýja fyrirtækis.

Halldór Harðarson, einn eigenda Brúar Strategy, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að ráðgjafarfyrirtækið hafi síðastliðin þrjú ár unnið að mörgum og ólíkum verkefnum, jafnt fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem félög skráð í Kauphöll og allt þar á milli. „Í mörgum tilvikum eru þetta stefnumótunarverkefni þar sem við erum að hjálpa fyrirtækjum að brýna sig og ákveða næstu skref til árangurs. Í þessum samtölum höfum við fundið fyrir hvað það skiptir þau miklu máli að hafa rétta fólkið til að framkvæma stefnuna sem verið er að setja,“ útskýrir Halldór.

Erfiðar ákvarðanir

Hann segir að stjórnendur þurfi að vera óhræddir við að spyrja sig hvort þeir séu með rétta fólkið innanborðs. „Þessu geta fylgt erfiðar ákvarðanir en samt áhugaverðar og skemmtilegar því það er alltaf gaman að fá nýtt blóð inn í fyrirtækið.“

Breytingar eru að verða á markaðnum að sögn bæði Halldórs og Kristjáns því fyrirtæki eru sífellt tækni- og markaðsdrifnari. „Þau eru í auknum mæli orðin meðvitaðri um nauðsyn þess að vera með skýra mynd af viðskiptavinahópnum og markaðsmál og samskiptamál verða því sífellt meira áberandi og mikilvægari. Á sama tíma verður reksturinn líka flóknari enda þurfa fyrirtæki að sinna samskiptum á ólíkum vígstöðvum, hvort sem það er á eigin vefsíðu, í tölvupósti, samfélagsmiðlum, öppum eða öðru. Við sjáum að sú tegund þekkingar og reynslu sem stjórnendur leita eftir inn í sín fyrirtæki er að breytast mikið. Það er stór hluti af ástæðunni fyrir stofnun Brúar Talent. Viðskiptavinir okkar sjá virðið í aðkomu utanaðkomandi þjónustu við að greina teymin og skilgreina hvaða eiginleikar gætu styrkt þau enn frekar.“

Þeir segja að vinnubrögð í kringum ráðningar og mannauðsstjórnun í stóra samhenginu hafi þróast mikið á síðustu árum. „Félög horfa meira á hæfileikastjórnun (e. talent management), að finna réttu hæfileikana og styrkleikana inn í teymin á vinnustaðnum og þróa einstaklinga til þess að stíga inn í ábyrgðarhlutverk. Lenskan hefur verið að finna ferilskrá sem fellur að starfslýsingunni en við viljum bæta inn miklu meira samtali um persónulega eiginleika fólks og hvernig það styrkir heildina í félaginu. Það þýðir að leitin að næsta liðsmanni verður dýnamískari. Við erum að horfa heildrænna á manneskjuna og getu viðkomandi til að bæta einhverju við teymið,“ segir Kristján.

Eins og Kristján og Halldór útskýra eru starfsmenn dagsins í dag lausbundnari fyrirtækjum en áður. „Þeir vinna á sínum eigin forsendum fremur en á forsendum fyrirtækjanna. Í gamla daga varstu bara þakklátur fyrir að hafa vinnu og hélst kannski tryggð við sama vinnustað ævina á enda,“ segir Halldór og brosir.

Er þetta ekki góð þróun?

„Jú, en hún er erfið fyrir marga vinnustaði því þeir upplifa að fólk horfir ekki bara á launatékkann heldur á það hvernig fyrirtækið passar því sem persónum – hugmyndafræðilega, félagslega o.s.frv. Þjóna verkefni fyrirtækisins metnaði, gildum og framtíðarsýn minni sem einstaklings?“

Kristján segir að það geti borgað sig hratt upp að vanda til verka í ráðningarferlinu. Dýrt geti verið að ráða rangan starfskraft, enda sé starfsmannakostnaður jafnan stærsti kostnaðarliður hvers fyrirtækis.

Kristján segir að bilið á milli starfsmanna og stjórnenda sé sífellt að minnka. „Það er komin svo mikil sérhæfing í mörgum störfum. Stjórnandinn getur ekki lengur verið sá sem allt veit og kann eins og hér áður fyrr. Þegar vel tekst til ertu með einstaklinga í teyminu sem eru fullfærir um að sinna störfum sínum sjálfstætt og koma með tillögur að betri leiðum til að leysa verkefnin.“

Halldór bætir við að margir stjórnendur séu of fastheldnir á skipuritin. Hann segir sögu af stjórnanda sem breytir skipulaginu í fyrirtækinu meðvitað á hverju ári til að búa til meiri dýnamík í rekstrinum. „Skipurit er bara skófla,“ útskýrir Halldór.

Spurðir um ganginn í Brú Talent frá því farið var af stað í sumar segja þeir Kristján og Halldór að hann hafi verið góður. „Við fáum mikil og góð viðbrögð. Við finnum að það er pláss á markaðnum fyrir þessa þjónustu. Það var meira að gera í sumar en ég átti von á og núna í haust er líflegasti tími ársins.“

Kastar út víðu neti

Um það hvernig best sé að finna rétta fólkið segist Kristján kasta út víðu neti. „Ég er ekki bókstafstrúarmaður á neitt. Hver einasta ráðning er lærdómsferli. Þú leggur af stað með lausa stöðu og einhverja mynd af því hver þú haldir að passi. Svo kviknar yfirleitt á mörgum ljósaperum í ferlinu sem maður hafði ekki hugsað út í fyrir fram.“

Um atvinnumarkaðinn almennt segir Kristján að töluverð hreyfing sé á fólki um þessar mundir en fáir séu á lausu. „Umhverfið í kringum sprota og nýfjárfestingar, sem verið hefur mjög virkt síðustu ár, er dálítið svelt í dag. Streymi fjármagns er lítið miðað við síðustu ár þannig að sköpun nýrra starfa er ekki eins frjó og verið hefur. En vinnumarkaðurinn er líflegur sem þýðir að fyrirtækin þurfa að halda utan um fólkið sitt, því það eru tækifæri þarna úti. Fólk horfir í kringum sig.“

Það er kostur að mati Halldórs ef starfsmenn eru opnir fyrir nýjum tækifærum. Hann segir það heilbrigðismerki sem haldi fyrirtækjunum á tánum. „Þetta þýðir að fólk er með sjálfstraust og metnað. Besti tíminn til að skoða nýtt starf er þegar þér líkar enn við það starf sem þú ert í þannig að þú hafir heilbrigðan samanburð og takir upplýsta ákvörðun. Engin fyrirtæki eiga fólk,“ segja þeir Kristján og Halldór að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka