Rafmagnsbor litlu félagi ofviða

Friðfinnur eigandi borfyrirtækisins Alvarr.
Friðfinnur eigandi borfyrirtækisins Alvarr. Ljósmynd/Aðsend

Friðfinnur K. Daníelsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri borfyrirtækisins Alvarr ehf., sem hefur starfað við jarðboranir um áratugaskeið, gagnrýnir nýlegt útboð Orkuveitu Reykjavíkur, OR, á 35 borunarsvæðum, sem sagt var frá á mbl. is í lok ágúst síðastliðins. Útboðið stóð opið til 20. september.

Friðfinnur segir í samtali við Morgunblaðið að OR útfæri útboð sín þannig að sem fæstir sjái sér fært að taka þátt. Hann segir að í útboðsgögnum sé til dæmis gerð krafa um að notaðir séu rafmagnsborar. Það sé litlu fyrirtæki eins og hans ofviða. „Fyrirtæki mitt er með 200 mkr. ársveltu og hefur ekki bolmagn til að koma sér upp rafmagnsborum, sem kosta hundruð milljóna, hvað þá upp á von og óvon,“ segir Friðfinnur.

Ekki gott aðgengi

Hann bendir einnig á að víða sé aðgangur að rafmagni ekki góður og oft gæti því þurft að framleiða rafmagn með dísilvélum á borstað. Hann ítrekar þó að hann skilji viðleitni OR til að stuðla að umhverfisvænni verkefnum. Friðfinnur ákvað að taka ekki þátt í útboðinu, enda væri það sniðið að einu fyrirtæki.

„Ég sendi Orkuveitunni bréf þar sem ég lýsi útboðum OR í gegnum tíðina sem málamyndagerningum sem síst séu til þess fallnir að efla samkeppni, laða fram hagstætt verð eða stuðla að framþróun í jarðboranageiranum. Yfirstandandi útboð sýnist mér stefna í sama flokk.“

Hann segir að OR hafi ekki svarað bréfi hans. „Það væri gaman að fá einhver viðbrögð, þó ekki nema bara fyrir kurteisissakir.“ Í niðurlagi bréfsins hvetur hann OR til að endurskoða vinnubrögð við boranaútboðin.

„Það er ekki nóg að hella glimmeri út um gluggana ef útboðin eru þannig úr garði gerð að aðeins einn óskasteinn lendi á borðinu með mun hærra verð í farteskinu en nauðsyn krefur. Viðskiptavinir OR eiga betra skilið, eða hvað finnst ykkur? Undirritaður er jafnframt einn af þeim,“ segir Friðfinnur í bréfinu.

Hann kveðst nokkrum sinnum vera búinn að ræða við Samkeppniseftirlitið vegna ójafnvægis á bormarkaðnum en talað þar fyrir daufum eyrum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK