Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair lýsir því í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans þessa vikuna að hann myndi óska þess að Evrópusambandið notaði fremur gulrót en vönd þegar kemur að loftslagsmálum.
„Í Norður-Ameríku er hvati og stuðningur frekar nýttur til að ná markmiðum í umhverfismálum en refsing í þessum efnum,“ segir Bogi.
Hann lýsir því að þar í landi sjái maður hvata til fjárfestinga í framleiðslu á sjálfbæru flugvélaeldsneyti meðan lenskan í Evrópu sé að leggja á skatta og álögur.
„Flug veldur 2-3% af kolefnisútblæstri heimsins og fluggeirinn tekur þá stöðu alvarlega. Á undanförnum árum hefur hann fjárfest verulega í nýjum og umhverfisvænni flugvélum og það á ekki síst við um Icelandair. En ef fluggeirinn og heimurinn allur á að ná markmiðum sínum í umhverfismálum þá þarf að fjárfesta enn frekar í nýrri tækni og þar þurfa að koma til hvatar og stuðningur, ekki skattar og gjöld," segir Bogi.
Draghi-skýrslan kom nýverið út og í henni kom meðal annars fram að sú vegferð sem Evrópa er á að auka gjöld og hömlur hafi neikvæð áhrif á samkeppnishæfni Evrópu.
„Loftslagsváin er vandamál heimsins og það er mikilvægt að vera með lausnir sem eiga við allan heiminn, annars mun eiga sér stað kolefnisleki, það er að flugið færist einfaldlega annað. Í mjög mörgum tilvikum er það til dæmis umhverfisvænna að fljúga á milli Evrópu og Norður-Ameríku í gegnum Ísland en á breiðþotum yfir hafið. Það er mikilvægt að skoða þessi mál í heildarsamhengi því flugsamgöngur eru nauðsynlegar fyrir hagsæld í heiminum, sérstaklega fyrir eyþjóðir eins og Ísland,“ segir Bogi.
Viðtalið við Boga má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.