Nýjum fyrirtækjareikningum Auðar, sem bjóða hæstu vexti á óbundnum innlánsreikningum óháð upphæð, hafa fengið góðar viðtökur hjá fyrirtækjum.
Þetta segir í tilkynningu Kviku banka þar sem fram kemur að eftir aðeins fjórar vikur frá opnun hafi yfir 400 fyrirtæki stofnað nýja reikninga og sé staða innlána komin yfir tvo milljarða króna.
Auður, sem er fjármálaþjónusta Kviku fyrir sparnaðarreikninga, kynnti fyrir um mánuði nýja þjónustu, fyrirtækjareikninga sem bera 8% vexti, óháð innlánsupphæð, á óbundnum og óverðtryggðum sparnaðarreikningum, sem eru hæstu vextir á sambærilegum reikningum sem eru í boði á markaðnum núna fyrir fyrirtæki.
„Þetta hefur farið mjög vel af stað og fjöldi viðskiptavina á fyrstu vikunum hefur farið fram úr okkar væntingum,“ segir Halldór Snæland, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs hjá Kviku, í tilkynningunni.
„Við fengum strax í upphafi frábærar viðtökur frá fyrirtækjum bæði frá þeim sem þegar voru í viðskiptum við Kviku en ekki síður frá nýjum fyrirtækjum. Fjöldi nýrra fyrirtækja hefur bæst í viðskiptavinahóp okkar og opnaði reikninga strax á fyrstu dögum.“
„Við fundum þannig fljótt að við vorum greinilega að svara eftirspurn sem var til staðar frá fyrirtækjum í landinu, ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Nú þegar mánuður er liðinn frá opnun hafa yfir 400 fyrirtæki opnað reikninga hjá Auði og staða innlána er orðin rúmir 2 milljarðar króna og fer hækkandi með hverjum degi,“ segir Halldór enn fremur í tilkynningunni.