Hans Petter Espelid, vörustjóri hjá upplýsingatæknifyrirtækinu HP inc. í Noregi, sagði á hádegisverðarfundi Opinna kerfa á Edition-hótelinu á dögunum að það væru ákveðnir hlutir sem ekki pössuðu saman þegar kæmi að hugmyndum um að flytja gervigreindina í „skýið“. „Bandvíddin er langtum minni en gögnin. Því er ekki hægt að setja alla gervigreindina í skýið.“
Þá væri rafmagnskostnaður einnig hindrun. „Heimsframleiðsla var 81 billjón bandaríkjadala árið 2017 en rafmagnskostnaður við að færa allt stafrænt efni í skýið er 92 billjónir bandaríkjadala. Auk þess er ekki til nægjanlegt rafmagn á heimsvísu til að styðja við flutning á öllum þessum gögnum. Það myndi þurfa 835 petavattstundir til að meðhöndla þau gögn árið 2025. Allur heimurinn notaði 26 petavattstundir árið 2017 til samanburðar.“
Espelid sagði að lausnin lægi í blandaðri lausn, þar sem sum gögn færu í ský en sum væru á tölvum fyrirtækjanna sjálfra. „Að reka gervigreindina á eigin tölvum innan fyrirtækisins hefur marga kosti. Vinnslan er fljótlegri, kostnaður minni, það sparar orku, öryggið er meira, þetta er ekki opið öllum og er snjallara og einfaldara.“
Hann sagði að viðkvæm gögn ættu ekki erindi í skýið og því sé betra að byggja gervigreindina inn í innra umhverfi fyrirtækja. Þar kemur t.d. Copilot-gervigreindarlausn Microsoft að góðum notum að sögn Espelid.
Í samtali við Morgunblaðið segir Espelid að tveggja ára gömul rannsókn hafi leitt í ljós að 30% af öllum gögnum hefðu ekki átt að fara í skýið. Aftur á móti sé ýmislegt sem ekki sé í skýinu í dag sem ætti heima þar. „Það þarf að forgangsraða meira. Það hefur verið að batna og stóru fyrirtækin eru sérstaklega meðvituð um hvað á að vera þar og hvað ekki.“
Spurður um þá miklu skýjatísku sem verið hefur í gangi undanfarin ár segir Espelid það skiljanlegt enda sé netið víðfeðmt og auðvelt að flytja gögn þangað. Það útheimti hins vegar mikla orku að reka gagnaverin og skýjaþjónusturnar og mikil sóun sé fólgin í að geyma óþarfa gögn. „Þetta tekur sífellt meiri orku.“
Greinin birtist í heild sinni í Morgunblaðinu sl. föstudag.